137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

horfur á vinnumarkaði.

[10:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki á að búa til plástra heldur eigum við að reyna að ráðast að grunnrót vandans. Það liggur ekkert annað fyrir um áætlanir íslenskra fyrirtækja en það sem þau hafa sjálf sagt sem er að ef það tekst að koma á efnahagslegum stöðugleika geta þau vonandi komist hjá frekari uppsögnum. Það sem til okkar friðar heyrir er að leggja þær grunnstoðir fyrir efnahagslegan stöðugleika að við getum komist hjá frekari uppsagnahrinum. Ef menn ætla ekki að horfast í augu við þann veruleika sem við blasir, ef menn ætla ekki að horfast í augu við að við verðum að axla ábyrgð og ganga frá því sem til okkar friðar heyrir varðandi Icesave-skuldbindingarnar er verið að kalla yfir fólk atvinnuleysi og erfiðleika í efnahagslífi að óþörfu. Það vita menn. Það er staðfest af hagsmunasamtökum atvinnulífsins, það er staðfest af öllum helstu greiningaraðilum. Og ef menn ætla að berja hausnum við steininn valda þeir fólki tjóni og erfiðleikum að óþörfu.