137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:15]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það svo að fljótvirkara sé að elta þá sem hafa hugsanlega brotið af sér með því að nýta skattalöggjöfina til þess að reyna að kyrrsetja eignir. Þó að áfram verði haldið því starfi sem hafið er, þ.e. að elta viðkomandi aðila vegna saknæms atferlis, geti þetta verið fljótvirkari leið. Ég fagna því að við tökum þetta skref.

Ég skil líka orð hæstv. fjármálaráðherra þannig að þetta sé almenn heimild sem muni standa. Hún sé ekki tímabundin og þannig verði hægt að grípa til hennar í framtíðinni. Síðan ríki óvissa um það hvort við göngum jafnlangt og Norðurlöndin eða hvort við förum lengra en þau í þessu. Mér heyrðist hæstv. ráðherra frekar leggja grunn að því svari að við gengjum jafnlangt og þau en kannski ekki lengra. Það væri ágætt ef nefndin skoðaði þetta sérstaklega.

Það er mjög mikilvægt að hafa samstarf við önnur lönd varðandi þessar rannsóknir og ég fagna því sem hefur komið fram að það geti orðið samstarf milli okkar og Bretanna, bæði milli sérstaks saksóknara og skattyfirvalda. Sumir segja að það sé ekkert sniðugt að vera í samstarfi við Breta því þeir beiti okkur mikilli hörku núna og það er rétt, þeir beita okkur mikilli hörku. Ég vil þó fagna öllu samstarfi, líka við Breta í þessu tilliti. Þeir eru með mjög öflugar stofnanir og okkur veitir aldeilis ekki af aðstoð utan frá.

Í leiðara Financial Times í gær voru færð mjög sterk rök fyrir því að ríkin ættu að vinna saman að því að eltast við þá sem hugsanlega hafa brotið af sér og ég tel að við eigum að taka mjög fagnandi í þá útréttu hönd.