137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur aldrei legið á mér að leggja málum lið og vinna hratt og mikið. Það hefur ekki verið vandamál. Ég mun leggja til að nefndin sendi málið strax til umsagnar og gefi ekki langan tíma en það verður að gefa aðilum umsagnarleyfi. Það verður að fá umsagnir frá þeim aðilum sem þekkja þetta frá hinni hliðinni en það eru kannski ekki margir sem þekkja þennan stóra hóp sem er áætlað á, því miður. Hann hefur ekki marga málsvara í þjóðfélaginu og ég veit ekki hver ætti að koma þar til varnar. Við þurfum að vanda okkur við þetta vegna þess að þarna er um að ræða geysilegar heimildir. Ég minni á að 109. gr. skattalaganna er eiginlega bönnuð börnum, hún er svo skelfileg. Þar er hægt að senda fólk í fangelsi og ég veit ekki hvað og hvað fyrir minnstu yfirsjónir. Ég veit af fólki sem hefur lent í fangelsi af því að endurskoðandi taldi ekki fram fyrir það. Við þurfum að gæta okkar á því að við gefum ekki þessu vaska fólki í skattheimtunni of miklar heimildir. Ég vil að efnahags- og skattanefnd fundi um þetta, fái til sín gesti og fái fram öll þau sjónarmið sem eru uppi þannig að þetta verði vandlega unnið og við gefum þessu vaska fólki ekki of sterk vopn til að berja á borgurunum.