137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:40]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Pétur Blöndal sé dottinn ofan í ótrúleg smáatriði. Ég ætla að afþakka að fólk sem hefur verið áætlað á fari að hringja og bera það upp við mig. Ég sagði ekki í ræðu minni áðan, virðulegi forseti, að ég þekkti ekki til fólks sem hefur lent í áætlanagerð. Ég held að allir þekki til þess og ég var ekki að ræða um það. Ég sagði að við hefðum betur klárað þetta mál miklu hraðar af því að tíminn skiptir máli, menn reyna að koma eignum undan. Hér er verið að gefa skattyfirvöldum heimildina af því að menn geta unnið hraðar með þá heimild. Þetta skiptir höfuðmáli, ekki hvernig fólki líður sem hefur verið áætlað á einhvern tímann. Það er ekki til umræðu hér.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins með þessu máli kemur fram að skattyfirvöld geta þurft að taka til rannsóknar ýmis mál þar sem kann að reyna á þessi úrræði sem hér um ræðir í kjölfar efnahagshrunsins. Jafnvel er talið að það þyrfti að fjölga starfsmönnum um einn til tvo til að taka á þessu, þannig að það er raunhæft. Fjármálaráðuneytið verður að gera sér grein fyrir því að það er algerlega raunhæft að taka nokkur svona mál í gegn, að kyrrsetja eignir vegna rannsókna í gegnum skattyfirvöld. Það að ætla að bíða með þetta mál í þinginu í einhverjar vikur tel ég að sé alls ekki æskilegt. Þetta mál átti að klára fyrir löngu síðan. Hugsanlega hefði verið búið að grípa til þessara aðgerða nú þegar. Fólk vill sjá aðgerðir og það vill sjá þær hratt. Við þingmenn eigum ekki að leggjast núna í tafaferli og halda því fram að skattyfirvöld muni misnota þessa heimild. Það er afar ólíklegt. Við erum einmitt að gefa skattyfirvöldum sterkar heimildir og hefðum betur gert það fyrr.