137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Það er ekki nema sjálfsagt að við vinnum hratt, vel og vandlega að umfjöllun málsins í efnahags- og skattanefnd og ég treysti á liðsinni hv. þingmanns við það. Auðvitað þarf að gæta að því að ekki sé gengið lengra en góðu hófi gegnir í lagasetningunni. Ég vil ekki hafna þeim hugmyndum sem hv. þingmaður setur fram um að hafa gildistíma frumvarpsins takmarkaðan. Ég hef þó fyrir fram nokkrar efasemdir um það vegna þess að eins og kom fram í mínu máli tel ég að löngu fyrir hrunið hafi legið fyrir svart á hvítu í skýrslu sem unnin var fyrir Alþingi að það væru mikil vanhöld á því að agi væri nægilegur í skatteftirliti og skattheimtu á Íslandi.

Hluti af því verkefni sem við okkur blasir er að auka á og herða aga og aðhald á öllum sviðum fjármála og viðskipta og ég held að við deilum þeirri skoðun, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég held þess vegna að okkur sé að minnsta kosti nauðsynlegt að skerpa nokkuð á þessum lagaramma til allrar framtíðar vegna þess að við upplifum núna að við höfum ekki þau tæki í lögunum sem við hefðum talið okkur þurfa þegar aðstæður eins og efnahagsáfall koma upp. Við verðum að gera ráð fyrir því á þjóðþinginu, þó að við sannarlega vonum að áfallið á síðasta ári komi aldrei aftur fyrir á Íslandi, þá verðum við í löggjöf okkar að gera ráð fyrir því að hér geti síðar meir, hugsanlega eftir einhverja áratugi, dunið yfir önnur áföll efnahagslegs eðlis. Hér þurfa að vera tól og tæki til að grípa til þá þegar það gerist því að menn geta í tómarúminu nýtt sér að koma undan eignum eða svíkjast með öðrum hætti undan lögunum ef lögin eru ekki tiltæk þegar áföllin ríða yfir.