137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:55]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. formanns efnahags- og skattanefndar, Helga Hjörvars, að vissulega er mikil þörf á að herða skatteftirlit, bæði almennt eins og hann vitnaði til og ekki síður sérstaklega vegna hrunsins. Ég fagna því framtaki hæstv. fjármálaráðherra að leggja fyrir þingið þetta frumvarp til laga sem veitir skattrannsóknarstjóra ríkisins auknar heimildir til að tryggja að menn standi rétt skil á opinberum gjöldum og axli sinn hlut í samneyslunni samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur sett. Ég fagna þessu frumvarpi þess vegna.

Mér þótti athyglisvert það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að skattyfirvöld hafi áður óskað eftir heimildum sem þessum, jafnvel fleiri og ítarlegri en hér er fjallað um, og á þær óskir hafi ekki verið hlustað. Þær hafi ekki náð fram að ganga. Það er gott að breyttir tímar eru í fjármálaráðuneytinu hvað það varðar.

Ég get líka tekið undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að lög af þessu tagi hefðu átt að vera komin í gildi fyrir löngu síðan. Ég vil þó segja að betra er seint en aldrei og fagna orðum hv. formanns efnahags- og skattanefndar um að hann hyggist halda fund á morgun til að fjalla um þetta mál og vinna það bæði hratt og vandlega. Það er auðvitað hægt, þetta er ekki umfangsmikið mál í sjálfu sér.

Frú forseti. Ég hef verið talsmaður þess að gripið verði til ráðstafana til að koma í veg fyrir undanskot eigna, bæði í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Ég flutti ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna sl. haust, í byrjun nóvember, frumvarp þar sem gert var ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fengi heimildir til að kyrrsetja eignir eigenda og stjórnenda gömlu bankanna í því skyni að koma í veg fyrir undanskot eigna. Þetta frumvarp náði ekki fram að ganga og var ekki einu sinni tekið á dagskrá Alþingis í vetur. Það er í rauninni með ólíkindum eftir á að hyggja því þetta var frumvarp til breytinga á neyðarlögunum og hefði átt að vera einfalt mál. Forsendur þess að það var flutt voru að þá hafði í raun engin rannsókn verið hafin á aðdraganda hrunsins eða hruninu, engin sakarannsókn hafin. Hinn sérstaki saksóknari tók ekki til starfa fyrr en um og upp úr 20. janúar á þessu ári og rannsóknarnefnd Alþingis var sett á laggirnar í desember. Á þessu ári hafa orðið þáttaskil í rannsóknum á þessum málum sem betur fer. Embætti hins sérstaka saksóknara hefur verið eflt verulega og af því að menn hafa stöðu grunaðra og rannsókn sakamála er hafin er hægt að grípa til heimilda í lögum til kyrrsetningar eigna. Það orðalag sem er í ákvæðinu í 1. gr. um framkvæmd og gildi kyrrsetningar, hvernig með skuli fara, er sama og orðrétt upp úr lögum um rannsókn og meðferð sakamála. Hér er í rauninni verið að veita skattrannsóknarstjóra sömu heimildir og eru tiltækar við rannsókn sakamála til kyrrsetningar.

Í upphafi umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði í lög um tekjuskatt ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að skattaðilar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda með því að flytja eða færa eignir úr sinni vörslu í hendur annarra.“

Það er sem sagt til þess ætlast að hægt sé að kyrrsetja eignir svo þær verði ekki færðar annað, t.d. í hendur nákominna ættingja, vina, kunningja, skotið úr landi eða hvað sem er. Þá hljóta menn þó að spyrja: Hvað gerist ef sá gjörningur liggur fyrir, ef menn hafa þegar skotið undan eigum sínum og kyrrsetningin verður árangurslaus? Þá er því til að svara, sýnist manni eftir að hafa skoðað þetta stuttlega, að í 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga er ákvæði um að ef kyrrsetning er árangurslaus, þ.e. ef engar eignir eru til að kyrrsetja, geti viðkomandi eða lánardrottinn krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Það þýðir að um leið og slíkt er gert vegna skattkröfu, eins og hér er lagt upp með, er hægt að rifta öllum gjörningum í aðdraganda slíkra gjaldþrotaskipta. Almenna reglan er sex mánuðir en það eru alltaf, held ég megi fullyrða, allt að 24 mánuðum sem hægt er að rifta svona gjörningum. Ef menn hafa vísvitandi til að koma sér hjá skattgreiðslum flutt eignir til mjög nákominna ættingja er hægt að rifta allt að 24 mánuði aftur í tímann. Þetta skiptir verulega miklu máli og það er ástæða til þess fyrir þingheim allan að sýna nú ekki hik heldur afgreiða þetta mál hratt og vel því að almenna reglan er sex mánuðir.

Frú forseti. Ég fagna þessu máli, fagna stefnubreytingu í fjármálaráðuneytinu og bind miklar vonir við að hv. efnahags- og skattanefnd auðnist að afgreiða þetta fljótlega.