137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[12:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál og vil bregðast við nokkrum atriðum sem nefnd hafa verið. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi þann hóp sem áætlað er á vegna þess að menn hafa ekki skilað inn framboðum … framtölum á réttum tíma. [Hlátur í þingsal.] Ég tek undir það með honum, að sjálfsögðu þarf að hafa hagsmuni slíks hóps í huga því að við vitum að það er ekki alltaf af illum hug eða vondum ásetningi sem slíkt gerist heldur verður mönnum einfaldlega stundum á í þeim efnum eða menn eru í veikri og erfiðri aðstöðu til þess, hafa kannski ekki náð valdi á þeirri tækni að telja fram rafrænt þó að framtöl séu að sjálfsögðu að verða að mestu leyti sjálfvirk núna. Eftir því sem skatturinn hefur aðgang að meiri upplýsingum er í sjálfu sér meira komið fyrir fram inn á framtalið. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessum hópi því að sjaldnast er um að ræða aðila sem lenda í skattrannsókn og almennt ekki aðila sem eru umsvifamiklir í sínum rekstri eða hafa mikið með höndum. Miklu frekar á þetta við um tilvik þar sem stærri mál hafa lent til skattrannsóknar.

Ég held reyndar og vil upplýsa að eitt af því sem er í skoðun til að gera skattframkvæmdina skilvirkari er að skattstjórar fái rýmri heimildir til að ljúka afgreiðslu minni mála þannig að færri en stærri mál lendi upp á borð æðri stjórnvalda í skattkerfinu.

Hv. þingmaður nefndi það sem sagt er í athugasemdum um frumvarpið um hina almennu umræðu og þar er verið að vísa til hennar en ekki endilega fjalla um þann afmarkaða þátt málsins sem hér er. Þetta mál er þó auðvitað í samhengi við þá miklu umræðu sem orðið hefur um uppgjör á hlutunum í heild þó að það snúi að hinum skattalega þætti í þessu tilviki.

Menn verða að hafa í huga að það getur oft verið erfitt að sanna sök í refsimálum og stundum kemur í ljós að menn hafa nýtt sér, eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefnir, smugur í lögunum. Eitthvað sem er það sem forðum var kallað, ég held hér í þessum ræðustóli, löglegt en kannski siðlaust. Þó að engin önnur refsiverð háttsemi sannist næst þó iðulega utan um skattaþáttinn og oft getur niðurstaða viðamikilla sakamála eða rannsóknarmála endað þannig að skattalagabrot sannast en ekkert annað. Þess vegna er það þannig t.d. í sambandi við þær miklu tilfærslur á fjármunum, sem sögur og að einhverju leyti staðfestar upplýsingar greina að hafi átt sér stað í aðdraganda hrunsins, að erfitt getur verið að sýna fram á að þar hafi verið brotin lög sem varða starfrækslu fjármálafyrirtækja eða fyrirtækja en þær kunna að tengjast atferli sem ekki fær staðist í skattalegu tilliti. Þetta er skatturinn auðvitað að rannsaka og reyna að draga að upplýsingar um í samstarfi við fleiri aðila.

Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað um mikilvægi þess að rannsaka þessa hluti. Mikið er lagt í þann þátt mála og stórauknir fjármunir settir í það starf og það þarf örugglega áfram að bæta við, t.d. hjá rannsóknarnefnd Alþingis þannig að hún geti ekki bara lokið sinni skýrslu nú á haust- eða vetrarmánuðum heldur fylgt þeim síðan lengra eftir eins og ætlunin hefur verið. Það hefur verið ákveðið að auka sérstaklega við fjárveitingar hins sérstaka saksóknara um allt að 100 millj. kr. einmitt til að rannsaka sérstaklega fjármagnsflutninga og færslur í fjármálafyrirtækjum og bönkum í aðdraganda hrunsins. Þetta er mjög mikilvægur og stór þáttur þessara mála sem þarf að sjálfsögðu að greina og það getur gagnast skattinum vel að vera þátttakandi í og fá aðgang að slíkum upplýsingum.

Ég get tekið undir að þetta frumvarp hefði mátt koma fyrr fram. Ég vil þó benda á að ýmislegt hefur þegar áunnist frá áramótum. Í vetur voru teknar í gegn breytingar sem voru og eru liður í að styrkja stöðu skattyfirvalda, t.d. veita skattinum ríkari aðgang að upplýsingum og taka á skattlagningu atvinnurekstrar á lágskattasvæðum eða aflandssvæðum. Innleiðing svokallaðra CFC-reglna er gagngert í því tilliti að hægt sé að ná utan um skattlagningu fyrirtækja sem eru með dótturfélög eða starfsemi á lágskattasvæðum og höfðu að óbreyttu möguleika á að færa þangað fjármuni, láta hagnað koma fram þar og sleppa þannig hjá eðlilegum skattgreiðslum. Á grundvelli þessara reglna sem ég vitnaði til er hægt að skattleggja samstæðuna í heild sinni í því hlutfalli sem hið íslenska eignarhald er í félagi á aflandssvæði og ná þannig eðlilegri hlutdeild í heildarskatttekjum.

Ég get einnig glatt hv. þingmenn með því að mjög líklega er meira á leiðinni, þ.e. ýmsir fleiri þættir þessara mála eru í skoðun og ég geri fastlega ráð fyrir því að fyrir haustþingið verði frekari aðgerðir á þessu sviði lagðar fyrir. Menn hafa mæðst í mörgu í fjármálaráðuneytinu í vetur, eins og ég veit að hv. þingmönnum er kunnugt um, og menn hafa kannski ekki haft tíma til að klára alla hluti eins hratt og þeir hefðu gjarnan viljað. Þetta er þó hingað komið, viðleitni af okkar hálfu, og ég tek að lokum undir með hv. þingmönnum að það væri mjög æskilegt ef þetta mál gæti fengið hér skjóta en að sjálfsögðu vandaða afgreiðslu. Þegar það er einu sinni fram komið liggur fyrir að þetta eru áform skattyfirvalda, það eru ákveðin skilaboð sem fara sína leið. Því fyrr eftir að málið er opnað með þessum hætti sem skattyfirvöld fá þessar heimildir í hendur, því betra. Það verður að sjálfsögðu í höndum þingsins og viðkomandi nefndar að meta það mál en ég get ekki leynt þeirri skoðun minni að það væri æskilegt að þetta mál fengi afgreiðslu sem fyrst.