137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[12:10]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á margt bitastætt í sinni lokaræðu varðandi það sem hefur komið fram í umræðunni. Ég saknaði eins atriðis og það voru viðbrögð við því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í sinni ræðu sem mér fannst mjög athyglisvert. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla hafa ýmsir aðilar í samfélaginu skráð eignir á nákomna ættingja og samkvæmt því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hélt hér fram í ræðu sinni er hugsanlegt samspil á milli þessara laga sem við fjöllum um núna og gjaldþrotalaganna. Hún nefndi að í gjaldþrotalögunum væri það þannig að ef ekki væri hægt að kyrrsetja eignir af því að eignirnar hefðu gufað upp væri hægt að fara í gegnum gjaldþrotaskipti og hægt væri að ógilda slíka gjörninga í tvö ár eða 24 mánuði.

Mér fannst þetta mjög athyglisvert og ég vil spyrja hvort þetta sé réttur skilningur hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að ef við samþykkjum frumvarpið sem við fjöllum um núna, sem heitir skattrannsóknarstjóraheimild til þess að kyrrsetja eignir hjá þeim sem verið er að rannsaka, ef eignirnar eru horfnar af því að menn hafa skráð þær á nákomna ættingja eða með öðrum hætti komið þeim undan, virkjast þá gjaldþrotalögin þar með og verða þá þessir gjörningar ógildir? Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram hér í 1. umr. þessa máls af því að þetta var mjög athyglisverður punktur sem hefur verið svolítið til umræðu í samfélaginu. Erum við sem sagt að veita svigrúm til þess að þeir gjörningar verði ógildir?