137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[12:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir dró inn í umræðuna mjög áhugaverðan punkt sem lýtur sem sagt að því að ef kyrrsetning er árangurslaus hvort þá stofnist möguleiki á kröfu til gjaldþrotaskipta í skilningi þessarar greinar gjaldþrotaskiptalaganna og hvort skattrannsóknarstjóri, eða öllu heldur tollstjóri fyrir hans hönd, geti talist í skilningi þeirrar lagagreinar lánardrottinn eða kröfuhafi sem hafi þennan rétt. Ég held að þetta sé atriði sem væri mjög æskilegt að hv. þingnefnd kannaði. Í mínum huga væri ákjósanlegt og sjálfsagt að svo væri, að það væri hægt að fylgja málinu eftir ef kyrrsetning er árangurslaus. Það felur m.a. í sér þennan möguleika sem gæti verið mjög mikilvægur til að tryggja fullnustu skattskuldarinnar, fjársektarinnar eða sakarkostnaðarins, að það væri hægt að rifta gerningum sem hefðu fært eignir frá þeim sem skuldina á til annarra sem kyrrsetningin sem slík býður ekki upp á.

Ég hvet til þess, af því að ég heyri að hér eru nefndarmenn úr efnahags- og skattanefnd, að þessi þáttur málsins verði skoðaður. Vonandi er það svo að líta megi á lögin með þessum hætti eða skýra í þessu frumvarpi að menn vilji að í þessum skilningi sé ríkisskattstjóri eða tollstjóri lánardrottinn eða kröfuhafi þannig að hann geti fylgt málinu eftir. Ef ekki mundi væntanlega það að tryggja það algjörlega með óyggjandi hætti hugsanlega kalla á breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti en það er þá eitthvað sem menn yrðu að skoða.