137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

niðurstaða fjárlaganefndar í Icesave-málinu.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Núna um helgina byrjuðu forustumenn ríkisstjórnarinnar að tjá sig um niðurstöðu meiri hluta fjárlaganefndar frá því á föstudagsnótt, aðfaranótt laugardags, með þeirri skýringu að breytingartillögur nefndarinnar rúmuðust allar innan þess samnings sem gerður hafði verið. Reyndar kaus hæstv. utanríkisráðherra að orða það þannig að það mætti rúma tillögurnar innan samninganna ef menn beittu skapandi hugsun. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa ákveðið að beita sinni skapandi hugsun og troða breytingartillögunum þannig inn í samningana að þeir rúmist allir innan þeirra.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum ekki að gera þjóðinni nokkurt einasta gagn með því að horfast ekki í augu við þá augljósu staðreynd að breytingartillögur þær sem gerðar voru í fjárlaganefnd gjörbreyta forsendum samningsins. Þær urðu t.d. Michael Hudson hagfræðiprófessor tilefni til að skrifa grein í Financial Times um helgina. Hann vakti athygli á því að menn væru hér jafnvel að setja fordæmi sem aðrar þjóðir mundu nýta sér í framtíðinni, þ.e. að í skuldaskilum milli þjóða yrði farin sú leið að miða endurgreiðslur frekar við efnahagslega þróun en harðar kröfur stærri aðilans gegn hinum veikari og minni. Þetta er grundvallaratriðið. Ég hef af því miklar áhyggjur ef forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki komið auga á þessa miklu og mikilvægu breytingu sem gerð var á samningnum. Ég held því fram að það geti stórskaðað hagsmuni okkar Íslendinga þegar viðmælendur okkar erlendis, t.d. á Norðurlöndunum og annars staðar, hlýða á þennan málatilbúnað, kynna sér síðan breytingartillöguna og sjá hvað er rétt í málinu. Menn eru ekki (Forseti hringir.) að gera nokkrum einasta manni gagn með því að halda því fram að hér sé enn á ferðinni sami samningurinn á sömu forsendunum. Menn eru að vinna þjóðinni ógagn, koma okkur í enn frekari vandræði (Forseti hringir.) en orðið er og það á tímum þegar við þurfum á því að halda að endurbyggja traust á íslenskum stjórnmálum, stjórnmálamönnum og (Forseti hringir.) forustumönnum í ríkisstjórn.