137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

gjaldfellingarákvæði Icesave-samninganna.

[15:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hópur vísra lögfræðinga var fjárlaganefnd til aðstoðar við lokafrágang málsins og ég held að við getum treyst því að eftir því sem mögulegt var hafi lagalega verið reynt að skoða umbúnaðinn um þetta þannig að hann væri traustur. Ég trúi því að þess muni sjá stað í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, að þar verði útlistað hvernig menn nálguðust þessar niðurstöður.

Það gildir með það sem hv. þingmaður kallar gjaldfellingarákvæði sem mjög margt annað í þessum efnum að þetta er svolítið spurning um það hvort við reynum að fara í úrvinnsluna í góðri trú eða hvort við viljum ganga út frá því fyrir fram að allt fari á versta veg. Er það ekki þannig að náist þetta samkomulag og málinu ljúki með þeim hætti að Tryggingarsjóðurinn okkar taki þetta lán og fái ríkisábyrgð á eftirstöðvarnar innan marka þess sem hér er lagður grunnur að að báðir aðilar eigi eftir það hagsmuna að gæta í að þetta gangi upp? Ekki síður hinir sem lána peningana, þeirra hagsmunir verða að sjálfsögðu þeir að íslenskt hagkerfi þróist þannig og okkur vegni það vel að það sé líklegt að við getum borgað peningana til baka. Það væri væntanlega ekki vænlegasta leiðin til þess af þeirra hálfu að koma okkur í vandræði með því að gjaldfella allt í einu lánasamninginn upp úr þurru eins og mér virtist hv. þingmaður gera skóna.

Ég held að við þurfum ekki að hafa stórar áhyggjur af því. Ef það tekst að lenda þessu með farsælum hætti fara hagsmunir aðila saman í framhaldinu. Það verða líka hagsmunir umheimsins, ekki bara Breta og Hollendinga heldur margra annarra, Norðurlandanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins o.s.frv., að okkur vegni þannig að við getum greitt til baka þau lán sem við verðum að fá úr ýmsum áttum. Það er augljóst mál í mínum huga og þess vegna eigum við ekki að gefa okkur fyrir fram (Forseti hringir.) að af einhverri meinbægni í okkar garð muni menn reyna að bregða fæti fyrir það að við getum staðið við skuldbindingar okkar.