137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

gjaldfellingarákvæði Icesave-samninganna.

[15:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Auðvitað væri hægt að hugsa sér að ganga frá ýmsum atriðum þessa máls og annarra öðruvísi ef við værum að semja við okkur sjálf. En það var ekki og er ekki beinlínis þannig að Ísland hafi verið að semja við sig sjálft um sín mál frá 6. október sl. Það er augljóst að það hefur verið mikill þrýstingur úr umhverfinu á að þetta mál væri klárað af ástæðum sem við öll þekkjum. Hann er til staðar og við vorum rækilega minnt á hann um mánaðamótin júlí/ágúst þannig að að því leyti til hafa hlutirnir ekki breyst mikið. En við skulum heldur ekki gleyma út úr umræðunni mikilvægi þess fyrir okkur sjálf að þessi mál leysist, að við getum haldið áfram og að þetta standi ekki lengur í vegi fyrir okkur sem hindrun þess að okkar almenna endurreisnarprógramm geti gengið áfram. Það er mikilvægara en nokkru sinni, nú þegar haustið nálgast, að við leysum sem flest af þessum málum fljótt og vel á næstu vikum og getum haldið ótrauð áfram baráttunni við erfiðleikana innan lands.