137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

fyrirgreiðsla í bönkum – spekileki.

[15:20]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Fyrri spurning hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sneri að því hversu langt væri, eins og hann orðaði það, í að bankar á Íslandi störfuðu eins og bankar. Því er til að svara — og það er eitt af því sem má kannski segja að hafi tekist skár en við var að búast miðað við aðstæður — að við höfum haft starfandi innlent bankakerfi alveg frá því í byrjun október sl. en auðvitað voru bankarnir um margt laskaðir eins og gefur að skilja og þess vegna hefur tekið þá talsverðan tíma að ná vopnum sínum.

Ég ætla samt að fullyrða að þeir hafi staðið sig betur en ætla mætti miðað við aðstæður þótt auðvitað megi gera betur. Það er enn verið að stíga skref til að auka kraft þeirra til að takast á við vandamál íslensks efnahagslífs og reyndar er það svo að í síðasta mánuði, þessum og næsta verða tekin nokkur til viðbótar sem vonandi og fyrirsjáanlega virðast ætla að enda með því að tveir af bönkunum þremur komist óbeint í eigu erlendra kröfuhafa, þ.e. í eigu þrotabúanna sem erlendir kröfuhafar eiga kröfur í. Þegar því lýkur eiga þeir að vera með nokkuð þokkalegt bakland. Þeir eiga að vera með nægt eigið fé og þeir eiga að vera með, og eru reyndar með, meira en nóg laust fé þannig að ég held að þá verði því ekkert fyrirstöðu að þeir starfi eins vel og hægt er að ætlast til miðað við hvaða aðstæður þeir hafa.

Varðandi spekilekann er það vitaskuld rétt að ég og reyndar margir fleiri hafa lýst yfir áhyggjum af því ef bestu synir og dætur Íslands vilja ekki búa hér og starfa á næstu árum. Ég hef reyndar einnig séð sagt að ég telji að það verði ekki niðurstaðan, en varðandi þá sérstöku spurningu hvort sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að miða hæstu laun í ríkisgeiranum við laun forsætisráðherra muni ýta undir spekileka verð ég að fullyrða að ég tel að það sé hægt að fá ansi gott fólk til að starfa fyrir tæpa milljón á mánuði. Ef viðmiðið er að besta fólkið fáist einungis með þeim ofurlaunum sem voru í boði innan íslenska fjármálakerfisins held ég að okkur hafi ekki tekist mjög vel að ráða fólk fyrir þau laun.