137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

fyrirgreiðsla í bönkum – spekileki.

[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér þegar kemur að bönkunum. Staðreyndin er sú að meðan fyrirtæki og almenningur fá ekki fyrirgreiðslu, og þá er ég kannski sérstaklega að vísa núna í þessa umræðu um fyrirtæki, ýtir það einfaldlega undir atvinnuleysi. Maður heyrir víða hjá fólki sem stýrir þessum fyrirtækjum að það tekur langan tíma og er jafnvel ómögulegt að fá hina minnstu fyrirgreiðslu. Við skulum ekki gleyma því þó að hæstv. viðskiptaráðherra segi hér að betur hafi gengið en til var ætlast að það er fyrirheit frá þessari ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkunum frá því að þeir tóku við 1. febrúar að það yrði stutt í að bankar mundu starfa með eðlilegum hætti. Við þekkjum að miklir fjármunir fara m.a. úr lífeyrissjóðum inn í bankakerfið en það þarf einhvern veginn að losa um þennan vítahring þannig að þeir fjármunir nýtist til að knýja hjól atvinnulífsins.

Síðan verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti … (Forseti hringir.) Það stendur á klukkunni minni að ég eigi mínútu eftir.

(Forseti (ÁRJ): En það er ein mínúta í síðari umferð og klukkan lét ekki alveg að stjórn þannig að forseti leiðréttir.)

Ég get ekki tekið mið af öðru en þeirri klukku sem hér er, virðulegur forseti. Eru einhverjar aðrar hugmyndir í gangi?

(Forseti (ÁRJ): Þingmanninum ber að þekkja þingsköp með alla sína reynslu af þingstörfum.)

Virðulegi forseti. Þegar ég græði mínútu hleyp ég kannski ekki alveg frá henni en ég get verið stuttorður, virðulegi forseti. Ég vil upplýsa hæstv. viðskiptaráðherra um það að þetta snýst ekki um ofurlaun í bankakerfinu. Þetta snýst m.a. um heilbrigðiskerfið og það kemur í ljós að nokkur hundruð manns eru með hærri laun (Forseti hringir.) en laun forsætisráðherra án fríðinda. Það er algjörlega ljóst að við erum í mjög mikilli samkeppni um þetta fólk. (Forseti hringir.) Það er einmitt þess vegna sem þessi umfjöllun er. Ef hæstv. viðskiptaráðherra hefur ekki áhyggjur af þessu er það auðvitað bara ákveðið svar (Forseti hringir.) og ber að þakka fyrir hreinskilnina.