137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

fyrirgreiðsla í bönkum – spekileki.

[15:25]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Það er auðvitað öllum ljóst að þau verkefni sem íslenska fjármálakerfið stendur frammi fyrir eru tröllvaxin, m.a. við það að hjálpa öllum þeim íslensku fyrirtækjum og reyndar heimilum einnig sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum. Það verður ekki leyst á einni nóttu. Við verðum einfaldlega að gera eins vel og við getum og við munum aldrei ná fullkomnum árangri, við þurfum ekkert að blekkja okkur með því, en við eigum að geta ráðið við vandann og í því verki gegnir íslenska fjármálakerfið lykilhlutverki. Ég er þess fullviss að við munum ná að endurreisa fjárhag íslenskra fyrirtækja, enda verður að hafa í huga að þótt efnahagsreikningar þeirra líti illa út eru enn til staðar hinar raunverulegu eignir sem búa til verðmæti á Íslandi, fólkið, náttúruauðlindir, innviðirnir og allt það. Með góðri aðstoð góðra manna munum við ná að nýta þær eignir til að framleiða vörur og þjónustu til að halda uppi lífsgæðum hér á landi hér eftir sem hingað til.