137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

Icesave-samkomulagið.

[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég stóð í þeirri meiningu að þetta mál væri á leiðinni inn í þing til efnislegrar umfjöllunar eftir nefndarstörf, jafnvel á morgun eða a.m.k. á allra næstu dögum, þannig að þá gefst rýmri tími til að ræða það og svara spurningum eftir atvikum heldur en endilega er ástæða til að gera í óundirbúnum fyrirspurnatíma kannski sólarhring áður en málið kemur á dagskrá. En ég skorast ekki undan því að svara því sem ég tel málefnalega að spurt. Varðandi (Gripið fram í.) hins vegar hugmyndir um nýjar samningaviðræður og nýja samninganefnd tel ég enga ástæðu til að gefa sér að neitt slíkt komi til.

Eins og ég sagði áðan, og ég vísa til fyrra svars, er það mín von og trú að allir bindi vonir við að þetta sé farsæl niðurstaða í málinu, við séum ekki aftur á byrjunarreit, málið óleyst og upp í loft, og ég hef gengið út frá því að aðrir sem aðild eiga að efnislegri lausn málsins, kannski þá ekki Framsóknarflokkurinn að sama skapi þótt ég voni sannarlega að þeir skoði hug sinn vandlega nú um að verða aðilar að þessari niðurstöðu, (VigH: Hugsaðu um þinn flokk.) séu sama sinnis. Ég hafna algerlega slíkum túlkunum og vil ekki trúa því að svo illa fari því að það yrði okkur að mínu mati ákaflega dýrkeypt ef við þyrftum að sæta því að taka, guð má vita, hversu langan tíma í alveg nýtt ferli í málinu með allt saman stopp sem á því hangir. Ég er bjartsýnn á það að eftir þessa ítarlegu og góðu vinnu fjárlaganefndar liggi fyrir efniviður í farsæla niðurstöðu í þessu máli. Umgjörðin um það af hálfu Alþingis hvernig íslenskt efnahagslíf getur staðið að lausn málsins og innan hvaða marka það er þá gert er til staðar og þetta er vonandi málefnalegt, sanngjarnt og útskýranlegt gagnvart viðsemjendum okkar og kallar þá í mesta lagi á útskýringar og rökstuðning af okkar hálfu í framhaldinu en ekki nýjar samningaviðræður.