137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég man þann texta rétt sem hér er vitnað í stendur þar mjög skýrum stöfum að vitnað sé í tvö bréf sem send voru fyrir bankahrunið 6. október. Þau eru skrifuð og þær yfirlýsingar eru gefnar áður en fyrir liggur að um allsherjarbankahrun sé að ræða. Í álitinu kemur jafnskýrt fram að síðar voru gefnar yfirlýsingar, og þær voru knúðar fram ef ég man rétt 14. nóvember, sérstakar yfirlýsingar um að við mundum standa við okkar skuldbindingar. Ég tel ekki að á neinn hátt sé rangt farið með málið. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það er vitnað bæði fyrir hrunið en það er líka ítrekað eftir hrunið.

Einnig má ítreka að þetta byggir allt á því uppleggi sem var ákveðið árið 1999 með því að stofna tryggingarinnstæðusjóðinn. Þær ræður sem þar voru fluttar eru auðvitað líka málsgögn í þessu máli. Ég held að þannig hafi allir flokkar komið að því að (Forseti hringir.) búa til það umhverfi sem hefur valdið okkur þeim vandræðum sem við erum í út af Icesave-samkomulaginu.