137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum farið í langar söguskýringar um tilefni eða orsök bankahrunsins. Ég held að óhætt sé að fullyrða að okkur sem sátum við þetta borð og fjölluðum um stöðuna rétt fyrir bankahrunið grunaði ekki hvernig færi nákvæmlega. Ég held að menn hafi á þessum tíma fyrst og fremst gefið yfirlýsingar til að reyna að róa þjóðina og hindra að það yrði svokallað „run“ á bankana, þ.e. að menn færu að flytja innstæður sínar. Við fáum þó tækifæri til að skoða þetta frekar í framhaldinu. Heilar rannsóknarnefndir eru að athuga aðdraganda þessa hruns og þá mun hið rétta koma í ljós.

Tilgangurinn með því að taka þetta fram var að vekja athygli á því að þó að efast megi um lagalegu skuldbindingarnar voru ákveðnar siðferðilegar skuldbindingar við þessar yfirlýsingar sem gefnar voru. Það er megininntakið í áliti meiri hlutans og ég vona að það hafi komist skýrt til skila.