137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samningurinn er þannig gerður að hann tekur ekki gildi nema Alþingi samþykki á hann ríkisábyrgð. Um það snýst þetta mál eins og hv. þingmaður kemur inn á.

Það sem mig langar til að fá skýrar fram hjá talsmanni Sjálfstæðisflokksins í þessu máli er hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert sér grein fyrir því að með því að vísa í að fyrirvararnir séu ekki inni í samningnum heldur tilboð um nýjan samning til Breta og Hollendinga — og þar með um leið og samningurinn tekur gildi með ríkisábyrgð án þess að Hollendingar og Bretar skrifi undir samninginn — fellur samningurinn strax í breska lögsögu og um samninginn gilda bresk lög — þá er ekkert skjól í okkar íslensku lögum sem ríkisábyrgðin er veitt á og því síður í íslenskri stjórnarskrá varðandi eignarréttarákvæðið og önnur ákvæði í stjórnarskránni.

Ég spyr því þingmanninn á ný: Hafa sjálfstæðismenn farið vel yfir það (Forseti hringir.) hvort samningurinn taki gildi eða ekki og hvort þessir fyrirvarar rúmist innan samningsins? (Forseti hringir.) Hvort það sé þá ekki bara einföld ríkisábyrgð á samningnum og Bretar og Hollendingar (Forseti hringir.) vísi burtu fyrirvörunum?