137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeim ósköpum gæddur að hafa ekki fullan skilning á þankagangi þess fólks sem aðhyllist aðrar stjórnmálaskoðanir en ég, þannig að það er kannski til of mikils ætlast að ég sé í svörum fyrir það en skilningur okkar sjálfstæðismanna í þessum efnum er skýr. Við höfum með fjárlaganefndinni allri gengið þann veg, úr því að meiri hluti alþingismanna leitaði eftir þeirri sátt, að reyna að bæta málið að okkar mati frá því það kom fyrst fyrir þingið. Við erum sammála um það, 1. minni hluti fjárlaganefndar, að miðað við þann farveg sem málið fór í eru þær breytingartillögur til stórra bóta á því frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði hér fyrir. Við höfum þennan skilning afdráttarlausan. Aðrir hafa aðra sýn á þetta eins og hér hefur komið fram í umræðum nú þegar í fyrirspurnum til formanns fjárlaganefndar. Þetta er okkar skilningur en svör við þessu getum við ekki gefið hér. Eins og kom fram í ræðu minni er það viðsemjendanna að svara þessari spurningu.