137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tveimur dögum fyrir undirritun Icesave-samninganna var hæstv. fjármálaráðherra spurður að því hvort það væri rétt sem Alþingi hefði borist til eyrna að verið væri að skrifa undir Icesave-samningana. Hann harðneitaði því. Þetta liggur fyrir í þingskjölum Alþingis.

Það liggur einnig fyrir og hægt er að sannreyna með gögnum að álit lögmannsstofunnar Mishcon de Reya, sem svo undarlega vildi til að var afar óþægilegt fyrir meiri hlutann, var ekki lagt fram. Það er staðreynd. Það er hægt að sýna fram á það með gögnum og umræðum ef menn vísa í umræður á Alþingi.

Af hverju var ekki lagt fram minnisblað um skilning frá 31. október 2006? Af hverju þurfti minni hlutinn að draga þessi gögn út með töngum og berjast fyrir því að leynd yrði aflétt af uppgreiðslusamningnum svokallaða, sem er fylgiskjal með breska samningnum? Af hverju hvíldi leynd á þessum samningi? Af hverju var almenningi ekki sýnt strax hversu einhliða og hlutdrægir samningarnir voru eingöngu fyrir Hollendinga og Breta?

Þetta er ástæðan fyrir því að samningarnir voru ekki samþykktir í óbreyttri mynd eins og til stóð að gera (Forseti hringir.) og fjölmargir þingmenn hafa lýst yfir.