137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ræða við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson um eftirstöðvarnar af láninu eða það sem mun standa eftir ef forsendur Seðlabankans ganga ekki upp. Það væri raunar ágætt að fá hans túlkun á þessu ákvæði varðandi efnahagsleg viðmið. Með leyfi forseta:

„Verði greiðslubyrði lánasamninganna meiri en nemur hámarki skv. 3. mgr. skulu teknar upp viðræður við aðila lánasamninganna um áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Fari slíkar viðræður ekki fram eða leiði þær ekki til niðurstöðu takmarkast ríkisábyrgð í samræmi við hámark 3. mgr. nema Alþingi ákveði annað.“

Mín túlkun á þessu ákvæði er að þarna sé bara verið að taka á hámarki varðandi álagðar greiðslur en ekki því hvað eigi að gera við eftirstöðvarnar þegar þessi svokallaða ríkisábyrgð rennur út. Þegar við unnum þetta í þessum þingmannahópi var mjög skýrt (Forseti hringir.) tekið fram í tillögunum sem við lögðum fram að ríkisábyrgðin ætti að falla niður árið 2024 og þar með (Forseti hringir.) eftirstöðvar lánanna ef einhverjar væru.