137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þór Saari rifjaði upp í upphafi ræðu sinnar sögu einkavæðingarferlisins hér á Íslandi. Að gefnu tilefni og þar sem ég veit að hv. þingmaður vill halda öllu til haga vildi ég benda honum á að einkavæðingarferlið sjálft, hugmyndafræðin á bak við að einkavæða ríkisfyrirtæki, hófst víst í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Ég vil hins vegar á engan máta víkja mér undan ábyrgð okkar framsóknarmanna á þessu einkavæðingarferli og bendi á að fjöldi forustumanna flokksins hefur einmitt axlað þá ábyrgð og horfið af vettvangi.

Hins vegar, til þess að halda enn á ný öllu til haga, sitja hérna enn þá tveir þingmenn sem sátu í þeirri stjórn og eru nú ráðherrar og forustumenn í ríkisstjórn. Þessir þingmenn eru hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Fólkið sem hefur barist með kjafti og klóm fyrir afgreiðslu þessa máls, án nokkurra fyrirvara eða breytinga á málinu.