137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans við athugasemd minni.

Ég held að ég verði að taka undir allt sem þingmaðurinn sagði. Ég tel mjög mikilvægt að þeir þingmenn sem bera ábyrgð á þessu máli axli hana. Mér hefur fundist mjög sláandi hvað Samfylkingunni hefur tekist með miklum ágætum á þessum mánuðum sem liðið hafa frá hruni að víkja sér fullkomlega undan ábyrgð á þessu máli. Maður hefur nánast fundið til vorkunnar gagnvart hæstv. fjármálaráðherra að þurfa að standa frammi fyrir þessu gífurlega verkefni og fleiri verkefnum, málum sem hann sagði að væru á hans könnu en ég teldi að ættu mun frekar að vera á hendi Samfylkingarinnar því að Samfylkingin ber geysilega mikla ábyrgð á þessu máli.

Þó að hv. þingmaður vilji ekki endilega tengja þetta við umræðuna um Evrópusambandið vil ég gjarnan gera það. Það sást mjög skýrt í þeirri umræðu sem varð þegar aðildarumsóknin var rædd og hvort það ætti að taka hana fyrir gagnvart Evrópusambandinu að þetta mál tengist því mjög sterkt þó að Samfylkingin hafi viljað halda því fram að svo væri ekki. Það sést líka á því hvað fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og þáverandi samflokksmaður þeirra, ráðherra sem ég hef nefnt áður, hefur brugðist harkalega við í þessu máli með sínum greinaskrifum og viðtölum. Þá er ég að tala um Jón Baldvin Hannibalsson. Það er greinilegt að hann er mjög viðkvæmur fyrir allri gagnrýni varðandi þetta enda má segja að allt þetta ferli hafi hafist í hans tíð og ber (Forseti hringir.) hann náttúrlega fyrst og fremst ábyrgð á þessum EES-samningi.