137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi atriðið með samninginn sjálfan. Ef þetta frumvarp verður samþykkt verður ríkisábyrgðin, eins og þingið gengur frá henni, hluti af samningnum þannig að ákvæðið í samningnum sem vísar í að honum verði ekki breytt nema með samþykki gagnaðilans tekur þá til annarrar breytingar en þessarar, vegna þess að ákvæðið sjálft er órjúfanlegur hluti af samningnum sjálfum og viðkomandi grein getur ekki vísað í samningsgrein í samningnum.

Varðandi frávísunartillöguna höfum við verið að vinna þannig að málinu að gera breytingartillögur sem setja málið í þann farveg sem við gætum sætt okkur við. Fjallað er um það í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd að þeir hafa haldið því sjónarmiði á lofti í sumar að skynsamlegast hefði verið að senda málið aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Eins og ég rakti í máli mínu áðan tel ég skynsamlegast að í framhaldi af afgreiðslu þingsins komi aðilar málsins sér saman um að aðlaga samningana að þessum breytta veruleika og skilaboðum frá þinginu og einfalda ríkisábyrgðina í samræmi við það. Þetta er spurning um ólíka nálgun í málinu en það er í mínum huga óhjákvæmilegt að viðræður eigi sér stað í kjölfar þessarar afgreiðslu þingsins sem hér virðist stefna í til að bregðast við þessum nýju aðstæðum. Ég lít á þetta sem gagntilboð. Það þýðir ekki að viðsemjendur okkar í málinu þurfi nauðsynlega að hafna því tilboði. Ég tel að þær kröfur sem við erum með uppi í málinu séu þess eðlis að Bretar og Hollendingar ættu með réttu að fallast á þær. Þannig gætu þessar breytingartillögur leitt til þess að málið yrði afgreitt.