137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svörin frá hv. þingmanni. Ég get ekki alveg tekið undir það sem hann sagði um að hagfræðingar séu sammála um að þetta sé eitthvað sem menn geta staðið við. Það er náttúrlega verið að tala um hámarksgreiðslur þannig að við séum í raun búin að teygja okkur eins langt og við teljum möguleika fyrir þjóðarbúið að standa undir, að gefnum ákveðnum forsendum. Það sem þingmannahópurinn bað Seðlabankann um að reikna út fyrir sig var hvert væri þetta hámark miðað við 75% endurheimtur af lánasafninu. Bara með því að hækka þetta, þó þetta virki ekki háar tölur, þá erum við samt sem áður að tala um hækkun upp á 3 milljarða. Ég veit ekki betur en það muni töluvert um 3 milljarða á ári. Það er því mjög alvarlegt. En það sem mér finnst mun alvarlegra varðandi þær breytingar sem voru gerðar á tillögum þingmannahópsins varðar eftirstöðvarnar. Hvað á að gera við eftirstöðvarnar ef þær verða, eða að mínu mati þegar þær verða, vegna þess að forsendur Seðlabankans eru mjög bjartsýnar?