137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir í þeim breytingartillögum sem við erum að fjalla um frá meiri hlutanum að fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar. Stjórnvöldum, framkvæmdarvaldinu ber auðvitað að virða það, að málinu ljúki þannig að þeir fyrirvarar sem koma fram í breytingartillögunni verði viðurkenndir og virtir af okkur viðsemjendum. Það er viðfangsefni okkar þegar Alþingi hefur samþykkt þetta mál að ræða og útskýra breytingarnar fyrir viðsemjendum okkar. Ég tel að þær séu þess eðlis að þær ættu ekki að setja þetta mál í neitt uppnám. Engin ástæða er til að ætla annað en þeir fallist á þessa fyrirvara. Það er bara viðfangsefni þegar þessu máli lýkur.

Í þeim óformlegu viðræðum, sem farið hafa fram milli embættismanna hér og embættismanna í Hollandi og Bretlandi, hefur þetta fyrst og fremst verið útskýrt án þess að menn séu að fara í neinar samningaviðræður. Mér hefur fundist það sem komið hefur út úr því gefa tilefni til að ætla að ekki sé ástæða til að hafa mjög miklar áhyggjur af því að taka þurfi þessa samninga upp aftur eins og mér finnst að hafi komið fram hjá Sjálfstæðisflokknum.