137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og við samþykkjum og afgreiðum þetta mál frá Alþingi fer allt í gang úti í heimi. Þá byrja menn að gefa yfirlýsingar, í Bretlandi, Hollandi og víðar, um þetta og hitt. Þess vegna er svo mikilvægt að áður en það gerist verði jarðvegurinn undirbúinn og kynntar þær tillögur sem við erum að koma fram með sem bæði eru sanngjarnar og réttlátar og í samræmi við Brussel-viðmiðin. Þess vegna bið ég hæstv. forsætisráðherra að hugleiða hvort ekki sé meira virði að kynning sé vel undirbúin úti í heimi en það að við klárum þetta í flýti. Ég veit að það er ýmislegt sem liggur á og bíður. En það eru kannski tvær, þrjár vikur sem við þyrftum að gefa okkur og ég er viss um að hv. þingmenn eru tilbúnir til að leggja hönd á plóg.

Varðandi spurningu sem ég kom fram með áðan um það hvort ríkisábyrgðin falli niður 2024, það er mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra gefi um það afdráttarlaust svar að ríkisábyrgðin nær þangað og ekki lengra.