137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að setningu hryðjuverkalaganna er ekki hægt að afsaka. Þar gengu Bretarnir allt of langt, enda var tekið undir það af breskri þingnefnd að ekki hefði verið tilefni til að beita hryðjuverkalögunum með þeim hætti sem Bretar gerðu. Þetta mál tók ég líka sérstaklega upp við framkvæmdastjóra NATO í dag að mjög sérkennilega hefði verið staðið að máli af bandalagsþjóð í NATO að beita Íslendinga slíkum þvingunum sem getur ekki samræmst því sem bandalagsþjóð okkar og vinaþjóð á að gera.

Varðandi málsóknina og hryðjuverkalögin var farið mjög ítarlega yfir það. Það voru færustu lögfræðingar sem fóru yfir það hvort það væri rétt að íslenska ríkið færi í málsókn út af hryðjuverkalögunum. Það hefur komið fram, og ég held að það sé í nefndarálitinu líka, að ekki var talið rétt að við færum í mál út af hryðjuverkalögunum en engu að síður studdi íslenska ríkið einstaklinga og aðila sem vildu leita réttar síns með málsókn.