137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að ríkisstjórnin skuli taka upp nánast ársgamalt mál og ræða það akkúrat í dag við framkvæmdastjóra NATO og kvarta yfir því þegar það var mesta hagsmunamál þjóðarinnar að við skyldum hafa verið beittir hryðjuverkalögum og ekki var lyft litla fingri til að reyna að bera hönd fyrir höfuð þessarar þjóðar sem í raun hafði ekki gert neitt af sér, alveg einkennilegt.

Þá langar mig til að spyrja forsætisráðherra nú. Í ræðu hennar kom fram að hún liti svo á að fyrirvarar við frumvarpið sem nú liggja fyrir væru einungis varnaglar sem Hollendingar og Bretar gætu sætt sig við. Ef frumvarpið verður að lögum, hvað á ráðherra við með að tala um að fyrirvararnir séu varnaglar? Verður sama linkindin gagnvart Bretum og Hollendingum þegar viðræður hefjast á ný eins og er verið að lofa gagnvart þessari ríkisábyrgð og á að sætta sig við hina svokölluðu varnagla sem þingmenn kalla venjulega fyrirvara?