137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað útúrsnúningur hjá hv. þingmanni að í fyrsta skipti sé verið að taka það upp í dag af hálfu stjórnvalda að mótmæla hryðjuverkalögunum. Það var gert af hálfu fyrri ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórnar. Ég hef tekið það upp við Gordon Brown líka og óskað eftir því m.a. í framhaldi af niðurstöðu þessarar bresku nefndar að hryðjuverkalögum hafi verið beitt allt of harkalega. Ég hef ekki fengið fullnægjandi skýringu Gordons Browns á því.

Varðandi þá varnagla sem hv. þingmaður nefnir þá er það alveg ljóst að það er hlutverk stjórnvalda að taka þetta mál upp af festu við Hollendinga og Breta þegar niðurstaða er fengin í þinginu. Auðvitað er það hlutverk okkar að framfylgja því sem Alþingi samþykkir í þessu máli vegna þess að samningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um samþykkt Alþingis. Stjórnvöld hafa því þá skyldu að ganga til þeirra viðræðna af fullri festu og ná fram því sem samþykkt hefur verið af Alþingi. Það er alveg ljóst.