137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar höfum verið sakaðir um að hafa stundað tilraunahagfræði á Íslandi undanfarinn áratug. Jafnframt hefur það heyrst að við á Alþingi höfum stundað um nokkurra vikna eða mánaða skeið tilraunalögfræði og nú ber svo við að í ljós kemur að Framsóknarflokkurinn stendur fyrir því að stunda tilraunastjórnmálafræði. Við stundum því miklar tilraunir. (Gripið fram í.)

Að öllu gamni slepptu var hafin einhver vegferð 5. desember sem hefði hugsanlega leitt til annarrar niðurstöðu en við stöndum frammi fyrir í dag þar sem það var skýrt að fara átti að þessum svokölluðu sameiginlegu viðmiðum í samningunum. Með því að skipta yfir í minnihlutastjórnina var farið út í vegferð sem er einhver sú mesta röð af mistökum og rugli sem hefur sést í samningagerð á Íslandi. Það verður því aðeins að minna Framsóknarflokkinn á að það var fyrir tilstuðlan hans sem sú tilraunastjórnmálafræði var hafin. (BJJ: Hin ríkisstjórnin var nú ömurleg.)