137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka spurninguna vegna þess að þetta er einmitt aðaláhyggjuefni mitt. Það er alveg ljóst hverjum þeim sem hefur fyrir því að lesa samningana að mörg ákvæði þeirra, líklega flest, eru algjörlega úr samræmi við þá fyrirvara sem Alþingi er að setja núna. Þar af leiðandi getur aðeins annað af tvennu gerst. Annað hvort fellir einfaldlega samningana. Þetta verður þá hugsanlega túlkað sem nýtt samningstilboð þó að ég telji ekki að það eigi að vera svo, vegna þess að ég lít á þetta fyrst og fremst sem leið til að koma þessum samningum frá. Því að þegar við förum í viðræður held ég að við mundum nefnilega ekki vilja sitja uppi með fyrirvarana sem hér eru settir sem okkar ýtrustu kröfur eða sem einhvers konar samningstilboð.

Hitt sem gæti gerst er það að Bretar og Hollendingar kjósi að líta fram hjá fyrirvörunum og segi sem svo: Þeirra er ekki getið í samningnum, þvert á móti kemur þar fram að það megi ekki setja neina fyrirvara og þeir fyrirvarar eða breytingar sem kunni að vera reynt að gera hafi ekki gildi. Þetta er áhættan sem við stöndum frammi fyrir og þess vegna mundi ég vilja fara aðra leið.

Ég get nefnt sem dæmi vanefndaákvæði samninganna, þ.e. gjaldfellingarákvæðin. Á þeim er ekki tekið. Hvað ef Bretar og Hollendingar ákveða einfaldlega að gjaldfella lánið í heild sinni á næstu árum áður en kemur að efnahagslegu fyrirvörunum? Hvað gerist þá? Það er til að mynda tekið sérstaklega fram í samningnum að þó að eitthvað það sé gert sem felli ákveðin ákvæði samningsins úr gildi haldi hin áfram gildi sínu. Þetta er ein af þeim fjölmörgu ósvöruðu spurningum sem við stöndum frammi fyrir. Ég ætla að vona að þingið vinni málið þannig í framhaldinu að það leiti eftir upplýsingum frá þeim sem geta veitt svörin í stað þess að halda áfram um miðjar nætur hér að reyna að bægslast áfram með þetta.