137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Stuttu eftir að ríkisbankarnir voru einkavæddir óx mjög framboð á ódýru fjármagni á alþjóðamörkuðum. Rekja má þetta aukna framboð til mikils sparnaðar í nýmarkaðsríkjunum, sérstaklega Kína, Rússlandi og í Miðausturlöndum. Jafnframt urðu fjárfestar almennt áhættusæknari, en áhættusækni helst oftast í hendur við ódýrt fjármagn. Í þessu umhverfi uxu íslensku bankarnir þrír með ógnarhraða, skiluðu miklum hagnaði og fengu fljótlega hæsta lánshæfismat hjá alþjóðlegum matsfyrirtækjum.

Íslenska ríkið fékk á sama hátt hæstu einkunn enda nánast skuldlaust, skattar hóflegir og útlitið bjart. Þetta háa mat á ríki og bönkum gerði bönkunum kleift að taka að láni gríðarlega fjármuni í hlutfalli við landsframleiðslu Íslands, um 40 milljónir kr. á hvern íbúa.

Með örfáum undantekningum virtust lánveitendur bankanna, stjórnendur þeirra, endurskoðendur, hagfræðingar, matsfyrirtæki, Fjármálaeftirlit, löggjafinn, stjórnmálamenn og fjölmiðlar ekki hafa miklar áhyggjur af þessum mikla vexti fyrr en í byrjun árs 2006 þegar efasemdaraddir hófu að heyrast um hið íslenska „bankamódel“. Krosseignarhald á milli fyrirtækja, raðeignarhald og lánveitingar til stærstu eigenda mögnuðu upp áhættu og ójafnvægi í fjármálakerfinu, sem gerði það óstöðugt og viðkvæmt fyrir áföllum. Þegar vart varð við lausafjárskort í byrjun árs 2006 og sérstaklega eftir fall vogunarsjóða Bear Stearns sumarið 2007 varð sneitt um fjármagn og bankarnir stóðu frammi fyrir lausafjárskorti.

Landsbankinn og Kaupþing leystu að hluta vanda sinn með því að opna innlánsreikninga víða um Evrópu. Landsbankinn var stórtækari og hóf umfangsmikla móttöku innlána í Bretlandi og Hollandi undir nafninu Icesave. Bætti sú ráðstöfun stöðu hans umfram Kaupþing og Glitni. Lánsmatsfyrirtækin verðlaunuðu þessa ráðstöfun Landsbankans með hærra lánshæfismati en hinir bankarnir tveir fengu og markaðurinn með lægra skuldatryggingarálagi (CDS-álagi).

Við fall Lehman Brothers 15. september 2008 féllu lánalínur til íslensku bankanna meira og minna niður og mikil óvissa greip um sig í fjármálakerfi heimsins.

Glitnir leitaði til Seðlabanka Íslands um neyðarlán sem neitaði en lagði þess í stað til yfirtöku á 75% hlutafjár. Þetta leiddi til keðjuverkunar sem á endanum varð til þess að ríkið þurfti að yfirtaka bankann á grundvelli neyðarlaganna svokölluðu.

Tveim dögum síðar var Landsbankinn yfirtekinn. Mikill vilji var til að standa vörð um Kaupþing sem m.a. endurspeglaðist í því að lán að upphæð 500 milljón evrur var veitt bankanum gegn veði í hlutafé danska FIH-bankans.

Óvarleg ummæli breskra ráðherra og óskiljanleg beiting breskra stjórnvalda á hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum kippti hins vegar grunninum undan Kaupþingi og dótturfyrirtækjum og tilraunir til að bjarga félaginu urðu að engu.

Í kjölfar falls íslensku bankanna varð staða þeirra sem lagt höfðu fé inn á innlánsreikninga í útibúum bankans óljós.

Tryggingarsjóður innlána, sem starfaði á Íslandi sem sjálfseignarstofnun í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins, réði einungis yfir fé sem dugði fyrir um 3% af innlánum í þessum löndum.

Samkvæmt reglum áttu innlánsstofnanir að greiða 0,15% af innlánum í lok hvers árs þar til 1% af innlánum yrði náð. Þannig réði kerfið við áfall sem næmi því að um einn banki af hverjum 100 lenti í vandræðum á sjö ára fresti. Innstæðutryggingakerfið réð hins vegar ekki við kerfishrun eins og varð á Íslandi, enda ekki hannað til þess.

Veik staða innlánstryggingarsjóðsins stafaði af þeim gífurlega vexti sem verið hafði á innlánum og eins því að 85% af fjármálakerfinu á Íslandi hrundu. Óttast var að vantrú sparifjáreigenda mundi breiðast út og valda áhlaupi á banka í Evrópu ef ekkert yrði að gert.

Þrátt fyrir að tilskipun Evrópusambandsins gerði ráð fyrir að innlánsstofnanir stæðu alfarið straum af kostnaði við tryggingakerfið sáu bresk og hollensk yfirvöld sig knúin til aðgerða. Ákvörðun var tekin um að skattgreiðendur landanna greiddu það sem á vantaði að tryggingarsjóðurinn og eignir Landsbankans dygðu fyrir greiðslum innlánanna vegna fyrrgreinds ótta við áhlaup.

Gerð var krafa um að íslensk stjórnvöld og skattgreiðendur stæðu straum af því sem á vantaði til að innlánstryggingarsjóðurinn gæti tryggt það sem honum bar samkvæmt tilskipuninni. Greiddu stjórnvöld í löndunum tryggingarnar út til innstæðueigenda og að samkomulagi varð að ríkissjóður landanna mundi lána íslenska ríkinu fjárhæð sem þau töldu að því bæri að greiða.

Ljóst er að skuldbindingarnar munu hafa mikil áhrif á fjármál hins opinbera í framtíðinni, og lífskjör á Íslandi almennt ef fram heldur sem horfir. Þetta er í hnotskurn forsaga þess vandamáls sem Íslendingar standa nú frammi fyrir.

Geta þjóðarbúsins til að standa undir skuldbindingum sem um ræðir felst einkum í:

a. Hvernig hagvaxtarþróun verður háttað næstu ár.

b. Hvernig endurheimt eigna verður.

c. Hvernig þróun verðlags og gengis verður í Hollandi og Bretlandi.

d. Öðrum ófyrirséðum þáttum.

Stærsta áhættan af skuldbindingu sem þessari fyrir ríkissjóð er hve mikinn hluta af landsframleiðslu, ríkissjóðstekjum og útflutningstekjum hún tekur til sín. Ef lítill eða enginn hagvöxtur verður hér á landi næstu árin er fyrirséð að þjóðin muni ekki geta aflað þess gjaldeyris sem þarf til að standa straum af skuldbindingunni. Ekki er hægt að treysta á endurfjármögnun lána eins og útlitið er í dag.

Í greinargerð frumvarpsins er rakið hvernig 60% innheimtur af eignum Landsbankans muni leiða til skuldabyrði sem nemur 26% af vergri landsframleiðslu árið 2016.

Skuldahlutfallið er fall af hagvaxtarforsendum og endurheimt eigna. Höfundar greinargerðar fjármálaráðuneytisins og úttektar Seðlabankans virðast láta allar forsendur falla samningnum í vil.

Greinargerð Seðlabankans gerir þannig ráð fyrir að á tímabilinu 2010–2018 muni raunhagvöxtur nema um 3% að meðaltali á ári sem í fljótu bragi virðist ásættanlegt þótt í bjartsýnna lagi sé. En ekki er allt sem sýnist í þeim efnum vegna þess að á fyrri hluta tímabilsins, allt til 2014, er hagvöxtur mjög lágur en mun þá hoppa upp í að meðaltali um 4,5% á ári.

Ný-klassísk hagvaxtarfræði gerir ráð fyrir að framleiðnivöxtur á mann í þróuðum hagkerfum geti verið um 2,5% á ári til langframa. Til að forsendur og kenningar gangi upp er því gert ráð fyrir allt að 2% mannfjöldaaukningu á ári eftir árið 2014 í spám Seðlabankans.

Því er ljóst að hagvaxtarforsendur byggja á mikilli bjartsýni.

Fólksfjölgun er úrslitaþáttur þegar fjallað er um hagvöxt. Íslenskur vinnumarkaður hefur stækkað mjög undanfarin ár og má fyrst og fremst rekja það til aðflutts vinnuafls, sem kom hingað til lands vegna mikillar þenslu og vinnuaflsskorts. Yfirgnæfandi líkur eru á að meiri hluti þessa vinnuafls muni hverfa úr landi þegar atvinnuleysið sverfir að og lífskjörin versna. Líta ber til reynslu Færeyinga af kreppunni sem þar reið yfir snemma á 10. áratugnum en þá fluttu um 20% þjóðarinnar úr landi.

Hagvöxtur er háður þróun fólksfjölda en í áðurnefndum greinargerðum er á engan hátt reynt að geta sér til um hvernig hann muni þróast sem verður að teljast alvarlegur galli á forsendum.

Þá er gert ráð fyrir að verðbólga muni þróast hér á landi í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans næstu ár.

Það væri nýlunda ef stjórn peningamála yrði þannig háttað hér á landi í framtíðinni að þetta markmið næðist. Það er því ljóst að forsendur um hagvöxt og verðbólgu flokkast í besta falli undir óskhyggju.

Mikil óvissa fylgir einnig mati á eignum Landsbankans sem ætlað er að standa að mestum hluta undir höfuðstól láns Breta og Hollendinga til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þessar eignir eru af ýmsum toga, í mörgum löndum og mörgum myntum. Nokkrar eru mjög háðar efnahagsástandi í viðkomandi löndum en aðrar síður, auk þess sem greiðsluflæðið er afturhlaðið þannig að yfir 50% af greiðsluflæðinu er á síðustu þrem árum fyrir gjalddaga Icesave-lánsins sem eykur enn á óvissuna.

Ekki liggur fyrir áhættugreining á greiðsluflæðinu og verður að gera alvarlegar athugasemdir við það. Gengið er út frá því að eignir dugi fyrir um 75% af skuldbindingum vegna innlána. Þetta er metið gildi en alla mælikvarða á áhættu vantar. Einungis er sagt að mikil óvissa fylgi matinu. Þá felst áhætta í því hvernig þessar eignir greiðast því að til að mynda málaferli geta tafið þær verulega. Við það þyngist vaxtabyrðin mjög. Ekki hefur verið lagt mat á þessa áhættu.

Þá bendir álit Ragnars Halls til þess að sú jafna skipting á greiðslum milli allra kröfuhafa sem áttu kröfurnar upprunalega og þeirra sem hafa yfirtekið þær að hluta vegna innlánstryggingarkerfis Evrópusambandsins standist hvorki reglur um skipti við gjaldþrotameðferð né þá hugmynd á bak við tilskipun ESB um innlánstryggingar að tryggingin sé lágmarkstrygging. Virðist innlánseigendum vera tryggðar hærri bætur en tilskipunin gerir ráð fyrir vegna þess að lágmarkið er fyrst bætt og síðan er búinu skipt en ekki öfugt þannig að kerfið virðist oftryggja innlánseigendur.

Mikil áhætta er falin í því hvernig gengisþróun evru og punds verður í framtíðinni. Ef til að mynda verðhjöðnun verður á lánstímanum í evru og pundi leiðir það til þess að myntirnar styrkjast og lægra verð fæst fyrir útflutning Íslendinga auk þess sem raunvextir á láninu sem Íslendingar þurfa að greiða verða hærri. Sama gerist ef mikil verðbólga verður á Íslandi.

Samningurinn verður ekki efndur nema með miklum afgangi á utanríkisversluninni og þess vegna er hætta fólgin í minni verðbólgu í þessum myntum en í krónu. Á sama hátt yrði byrðin léttbærari ef þessu er öfugt farið.

Forsendur um raungengi eru jafnframt þannig að þær verða í besta falli að teljast óraunhæfar. Gert er ráð fyrir að raungengi verði nær 20% lægra en verið hefur yfir langt árabil. Þessi forsenda gerir það að verkum að samkeppnisstaða verður sterk og útflutningur mikill. Innflutningur verður dýr. Því er gert ráð fyrir að viðskiptajöfnuður verði mjög hagstæður og þar með verði hægur vandi að mæta gjaldeyrisþörf vegna afborgunar lána og vaxta.

Spár Seðlabankans um 160 milljarða vöruskiptajöfnuð áranna 2009–2018 eru athyglisverðar. Síðustu 20 ár er mesti afgangur á viðskiptum við útlönd 23 milljarðar árið 1994.

Spár Seðlabankans um raungengi sem endurspeglast í hagstæðum viðskiptum við útlönd leiðir til afgangs sem á sér engin fordæmi næstu 10 ár þar á eftir, þ.e. frá 2009 eða 2010. Þetta verður að teljast djörf forsenda og í meira lagi ótrúverðug. Forsendan um raungengi leiðir jafnframt til þess að gert er ráð fyrir að lífskjör versni mjög mikið hér á landi sem mun leiða til almennrar fátæktar. Hætt er við að ungt fólk flýi land ef þetta verður raunin og þá vindur vandinn enn upp á sig og landið festist í vítahring. Ekki er með nokkru móti hægt að fallast á slíka niðurstöðu.

Standist ákvæði neyðarlaganna um að innlán njóti stöðu forgangskrafna í þrotabú ekki gundvallarreglu stjórnskipunar um eignarrétt og afturvirkni mun fjárhagslegt tjón íslenska ríkisins aukast gríðarlega. Engir fyrirvarar eru í samningnum um gildi neyðarlaganna. Því er mikilvægt að ríkisábyrgðin verði takmörkuð eins og við höfum fjallað hér um.

Það er einn punktur sem mig langar til að koma með sem ekki hefur farið mjög hátt, um ábyrgð á Icesave-reikningunum. Mikils misskilnings hefur gætt í umræðunni um það hver ábyrgð Breta og Hollendinga á reikningunum er í raun og því er ekki úr vegi að rekja hvernig staðið er að opnun útibús sem tekur á móti innlánum innan EES og hvernig eftirliti er háttað. Ef fjármálafyrirtæki með starfsleyfi hyggst opna útibú í öðru landi á EES-svæðinu er um einfalt ferli að ræða:

a. Fjármálafyrirtækið sendir tilkynningu til fjármálaeftirlits þar sem móðurfélag er staðsett.

b. Fjármálaeftirlitið getur stöðvað opnun útibús ef fjármálafyrirtækið er fjárhagslega vanbúið á þeim tímapunkti og stjórn þess ekki nægilega traust.

c. Ef fjármálafyrirtækið uppfyllir kröfur um fjárhagslega burði til að stjórna slíku útibúi tilkynnir fjármálaeftirlit heimaríkis gistiríki um fyrirætlan fjármálafyrirtækisins.

d. Fjármálafyrirtækið getur þá opnað útibúi í gistiríki að uppfylltum almennum skilyrðum gistiríkisins.

Eins og sjá má er ekki um sérstakt leyfi frá heimaríki að ræða, heldur er um að ræða einfalda tilkynningu. Þær fjármálaafurðir sem fyrirtækið ætlar að bjóða upp á þurfa að hljóta samþykki fjármálaeftirlits gistiríkis en er óháð fjármálaeftirliti heimaríkis.

Ef um innlán er að ræða gera tryggingarsjóðir heima- og gistiríkis með sér samning — ef um mismunandi tryggingarupphæðir er að ræða — og fjármálafyrirtækið getur hafið móttöku innlána.

Eftirlit með fjármálafyrirtækinu er af tvennum toga. Fjármálaeftirlit heimaríkis hefur hefðbundið eftirlit með móðurfélagi, fjármálaeftirlit gistiríkis hefur með neytendavernd að gera og reyndar eftirlit með lausafjárstöðu útibús. Eftirlit með útibúi er því bæði á höndum fjármálaeftirlits gistiríkis og heimaríkis. Eins og sjá má er gistiríkið í raun eini aðilinn sem getur stöðvað opnun útibús.

Vegna þeirrar miklu ólgu sem var í landinu við upphaf 2009 dróst að haldið yrði af stað í samningaviðræður við Breta og Hollendinga vegna Icesave. Það varð því verkefni minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur með stuðningi Framsóknarflokksins að halda áfram með málið í upphafi febrúar 2009. Ákveðið var af hálfu þessarar ríkisstjórnar að skipa nýja forustu samninganefndar og varð því engin samfella í framvindu málsins eins og það var á vettvangi fyrri ríkisstjórnar.

Rétt er að ítreka þá skoðun að nauðsynlegt sé að finna lausn með samningum sem tekur mið af getu þjóðarinnar til að greiða án þess að lífskjörum á Íslandi sé á nokkurn hátt stefnt í voða. Þetta er nauðsynlegt til að flýta endurreisninni og ætti þá að taka mið af öðrum skuldbindingum vegna bankahrunsins, eignahruns, gjaldþrota heimila og fyrirtækja og atvinnuleysi.

Það er ljóst að lítill eða enginn vöxtur landsframleiðslu á Íslandi mun valda slíkri stöðnun að útilokað er að standa við skuldbindinguna sem samningurinn innifelur. Með þetta að leiðarljósi settu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram tillögu að efnahagslegum fyrirvörum sem takmarka þá áhættu sem fjallað hefur verið um hér að framan, svokölluð hagvaxtargólf, sem nú liggur fyrir breytingartillaga um sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur hér fram.

Sátt hefur náðst meðal meginþorra alþingismanna um fyrirvarana og er það vel. Það eru blóðpeningar sem við munum þurfa að greiða en ég tel að fyrirvararnir nægi til að lágmarka efnahagslega óvissu vegna Icesave-ósómans.

Þetta mál er búið að taka í kringum 10 vikur í þinginu. Meðferð málsins hefur verið með ólíkindum, hvernig draga hefur þurft fram upplýsingar til að þingmenn geti tekið upplýsta ákvörðun um hvernig taka skuli á málinu, en sem betur fer hefur okkur tekist að viða að okkur nægilega mikilli þekkingu og nægilega miklum upplýsingum til þess að við erum vonandi komin að einhvers konar lokapunkti. Við höfum girt fyrir þá ósvinnu sem ríkisstjórnin hefur framkvæmt með því að undirrita þessa samninga og það er mín einlæga von að þessir fyrirvarar verði til þess að það þurfi að fara út í samningaviðræður að nýju.

Ef Bretar og Hollendingar samþykkja fyrirvarana, jú, gott og vel, höfum við fengið þarna tryggingu fyrir því að þetta muni ekki knésetja okkur í framtíðinni.