137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er áhugavert að heyra að breska ríkið tapar á því með þessum hætti ef neyðarlögin verða dæmd ógild í Bretlandi. Það er mjög áhugavert að það fari að myndast hagsmunir hjá þeim að viðhalda því neyðarlagakerfi sem við settum á.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að hann svaraði ekki seinni spurningunni, hvort lánshæfismatið mundi ekki batna ef þetta yrði samþykkt og viðurkennt af Bretum og Hollendingum, þ.e. þessir efnahagslegu fyrirvarar, og hvort Íslendingar geti ekki farið að bretta upp ermarnar og farið að gera eitthvað þegar þeir sjá að þeir njóti 94% af hagvextinum, af vexti landsframleiðslu.