137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Vigdísi Hauksdóttur fyrir hennar innlegg í þessa umræðu. Mig langar til að spyrja hana um c-lið 6. gr. sem er á bls. 41 annars vegar og bls. 60 hins vegar í því frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram og tekur til ábyrgðar og skaðleysis. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til þess að halda lánveitandanum skaðlausum, þegar krafa er gerð um slíkt, vegna alls kostnaðar, taps eða skaða sem lánveitandinn kann að verða fyrir ef einhver af þeim skuldbindingum, sem íslenska ríkið ábyrgist samkvæmt fjármálaskjölunum, er eða verður óframfylgjanleg, ógild eða ólögmæt. Fjárhæðin, sem kostnaðurinn, tapið eða skaðinn nemur, skal vera jafnhá þeirri fjárhæð sem lánveitandinn hefði ella átt rétt á að endurheimta.“

Ég vil spyrja hv. þingmann Vigdísi Hauksdóttur hvort hún telji að þeir fyrirvarar sem hér liggja fyrir um ríkisábyrgð geti hugsanlega kallað á að þessi grein verði virk og að í ljósi c-liðar 2. tölul. 6. gr. geti bæði Bretar og Hollendingar sótt sínar kröfur vegna þess sem þar stendur.