137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni alveg ágæta ræðu. Það var margt sem hún kom inn á með sanni.

Hins vegar bendi ég henni á að í 40. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi forseta:

„Ekki má heldur taka lán […] nema samkvæmt lagaheimild.“

Það má ekki veita ríkisábyrgð nema samkvæmt lagaheimild. Það að eitthvert fólk úti í bæ segi í samningi að íslenska ríkið ábyrgist eitthvað hefur ekkert gildi fyrr en Alþingi er búið að samþykkja ríkisábyrgð. Það hefur ekkert gildi. Þó að breskir aðilar mundu segja að samningurinn væri svona og svona og gjaldfella hann gerðist ekki neitt. Það gerist ekki neitt nema að innlánstryggingarsjóðurinn verður að fara að borga einhver lifandis býsn og samningurinn er ógildur.

Alþingi verður að veita þessa ríkisábyrgð samkvæmt stjórnarskránni. Það má vel vera að Bretar séu ekki með þetta á hreinu vegna þess að þeir eiga ekki stjórnarskrá sjálfir. Við eigum stjórnarskrá sem bannar útgreiðslur úr ríkissjóði nema með lögum frá Alþingi þar sem ríkisábyrgðin er ákveðin og við megum hafa hana eins og við viljum. Við getum t.d. sagt að Alþingi ábyrgist eina milljón vegna Icesave-samninganna og ekki krónu meir. Þá yrði það bara þannig.

Við getum líka sagt að þetta sé háð ákveðnum skilyrðum um landsframleiðslu eða aukningu landsframleiðslu, eins og skilyrðin gera ráð fyrir, og gildi bara á ákveðnu árabili, eins og skilyrðin gera ráð fyrir, og þá gildir það á Alþingi. Síðan geta menn sem gerðu þennan samning verið í því að rifta honum og gera það sem þeir vilja. En ríkisábyrgðin sem íslenska ríkið skuldbindur íslenska skattgreiðendur og íslenska ríkið til að greiða gildir samkvæmt þeim lögum sem Alþingi setur. Þau gilda þá ofar því sem þessi samningur segir. Við hv. þingmaður getum líka gert með okkur svona samning og sagt að íslenska ríkið ábyrgist hann (Forseti hringir.) en það hefur ekkert að segja.