137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er væntanlega að vísa í lögfræðinga — annar var aðstoðarmaður hjá Vinstri grænum og hinn er mikið notaður af þeim. Gott og vel.

Mig langar til að fylgja þessu eftir með hvað séu góðir samningar. Við skulum láta liggja milli hluta þessa túlkun hv. þingmanns en eru það góðir samningar sem Íslendingar neyðast til að skrifa upp á þótt alls óvíst sé að þeim beri lagaleg skylda til þess? Eru það góðir samningar sem skapa svo mikla óvissu að þjóðfélagið steypist á hvolf heilt sumar við að reyna að krafsa sig út úr þeim samningum og að lokum er (Forseti hringir.) fundin upp leið með fyrirvörum sem gefur okkur fjallabaksleið út úr ósómanum? Eru það góðir samningar?