137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að hér hafi allt farið á hvolf í sumar. Þó að við þingmenn höfum setið inni í sumar og rætt þetta mál tel ég ekki að þjóðfélagið sem slíkt hafi farið á hvolf.

Varðandi lögmenn Vinstri grænna sem hér var vitnað til, þá er ég að tala um Eirík Tómasson sem fór fyrir lögfræðingateymi sem fjárlaganefnd fékk með sér á síðustu metrunum. Síðast þegar ég vissi var hann ekki félagsmaður í Vinstri grænum, svo því sé haldið til haga, eða aðrir þeir sem í þessu lögfræðingateymi voru.

Ég segi enn og aftur að samningurinn er góður að mínu viti. Það þurfti að samræma skoðanir fólks og í svo stóru máli sem þetta Icesave-mál er er ástæða til að gera það ef þess er nokkur kostur. Þessi þinglega leið var eðlileg (Forseti hringir.) til að meðferð málsins fengi að gilda og ég sé enga ástæðu til að halda því fram að samningurinn sé slæmur fyrir vikið.