137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir, allavega í einhvern tíma, að hafa heyrt þingmann eða aðra tala jafn vel um Icesave-samkomulagið og hv. þingmaður gerði. T.d. setningin „vaxtakjörin ásættanleg“. Þetta er umhugsunarefni.

Það sem vakti athygli mína var nálgun þingmannsins. Hún talaði mikið um siðferðileg álitaefni og hve mikil ábyrgð okkar Íslendinga væri. Nú erum við að fara í gegnum ákveðna hluti, þ.e. bankahrunið sem varð ekki bara hér heldur líka annars staðar, það er ljóst að margt fór mjög miður og við þurfum að taka sérstaklega á þeim þáttum.

Þetta mál snýst hins vegar ekkert um það. Þetta snýst um að við erum partur af reglugerðarverki Evrópusambandsins og þess vegna erum við í þessari stöðu. Þetta snýst um það að stóru Evrópuríkin eru búin að taka okkur í þumalskrúfu og beita valdi sínu og afli. Ég spyr hv. þingmann: Skiptir þetta nákvæmlega engu máli? Ég gat ekki heyrt annað hjá hv. þingmanni en að þær þjóðir sem við deilum við hefðu rétt fyrir sér varðandi innstæðutryggingarnar og það sem snýr að þessu evrópska samstarfi. Þetta veldur mér miklum áhyggjum. Ég vil fá skýrt fram frá hv. þingmanni hvort henni finnist það hið eðlilegasta mál hvernig þessar þjóðir hafa komið fram við okkur og sömuleiðis (Forseti hringir.) hvernig þetta fyrirkomulag með innstæðutryggingarnar er byggt upp og hvernig það er notað núna við þessar aðstæður.