137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:10]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður dró upp fallega, marksækna og eðlilega mynd af framtíðinni fyrir Íslands hönd. Því miður er það ekki staðreyndin sem við búum við, það er ekki raunveruleikinn. Við búum við allt aðra mynd og allt annan veruleika.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að Íslendingar væru stolt þjóð, dugmikil og orðheldin og við ættum að mæta öðrum þjóðum á jafnréttisgrundvelli. Það er ekki heldur raunveruleikinn. Við höfum séð hvernig Evrópuþjóðirnar hafa meira að segja dregið svokallaðar vinaþjóðir okkar í norðri með sér til þess að hossast á Íslendingum, berja þá og tæta í sundur með málum sem koma allt öðru við en því þegar fjallað er um Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Icesave o.fl. Þeir hafa misnotað aðstöðu sína, beitt valdi og valdníðslu gagnvart Íslendingum og það er raunveruleikinn sem við þurfum að horfast í augu við, hv. þingmaður, því miður.

Erlendir fjárfestar eru ekkert betri en innlendir fjárfestar, það vitum við af reynslunni. Ég er ekki að fella neinn dóm yfir fjárfestum almennt en erlendir fjárfestar eru ekkert betri en innlendir þegar eitthvað fer úrskeiðis. Þess vegna skulum við ekki taka of mikið tillit til þeirra og ætlast til þess að þeir ráði ferð í samningum sem lúta að framtíð Íslands. Öll markmiðin í ræðu hv. þingmanns voru skotheld og eðlileg (Forseti hringir.) en við verðum að gæta okkar á að við erum að deila og véla um samninga og viðbrögð herranna í Hollandi og breska heimsveldinu, (Forseti hringir.) herra sem verða vonandi aldrei herrar Íslands.