137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:13]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Margt hefur verið sagt um þetta Icesave-mál í dag og óþarfi er að tyggja upp og endurtaka sumt af því. Mér finnst samt ástæða til að bregðast við þeim orðum sem hv. þm. Atli Gíslason lét falla fyrr í dag í andsvörum við formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktsson, um þá afstöðu hv. þm. Atla Gíslasonar að það hafi verið í tíð fyrri ríkisstjórnar sem þær ákvarðanir voru teknar að falla frá lagalegum rétti þjóðarinnar til að láta á rétt sinn reyna.

Nú er það svo og um það er ekki deilt að fyrri ríkisstjórn kaus að setja málið í pólitískan farveg og leita samninga um úrlausn þessa máls en það er ekki rétt að þá hafi jafnframt verið fallið frá lagalegum rétti þjóðarinnar. Í greinargerð með frumvarpi fjármálaráðherra og í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er ákveðnum hlutum sleppt þegar farið er yfir hvaða sjónarmið Ísland hafði uppi gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hv. þm. Atli Gíslason sagði í umræðunni í dag að við Íslendingar hefðum í viðskiptum okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, í aðdraganda þess að sjóðurinn kom hingað til að hjálpa Íslendingum í þessum efnahagsþrengingum, ekki haldið til haga þessum lagalega rétti. Mér finnst ástæða til að leiðrétta þetta. Það kemur raunar fram í máli 1. minni hluta fjárlaganefndar hvernig þessum málum er háttað en ég held engu að síður, í ljósi þeirrar umræðu sem hér var í dag, að ástæða sé til að það komi líka fram í þessum stól. Í þeirri viljayfirlýsingu sem Íslendingar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerðu 15. nóvember 2008 er fleira sagt en menn hafa kosið að láta koma fram í greinargerð og meirihlutaáliti fjárlaganefndar. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa úr þessari viljayfirlýsingu:

„Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar.“

Þennan hluta viljayfirlýsingarinnar er að finna í gögnum meiri hluta fjárlaganefndar auk þess sem þetta kemur fram í greinargerð. Þar að auki er önnur setning sem fylgir beint á eftir og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ítrekuð er sú yfirlýsta stefna stjórnvalda að standa lagalega rétt að uppgjöri gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum gömlu bankanna, hvort sem er í samræmi við íslensk gjaldþrotalög eða þjóðréttarlegar skuldbindingar. Íslendingar hyggjast virða allar lagalega réttarlagalegar skyldur sínar. Sé ekki samkomulag um það hverjar þær séu sé réttast að vísa slíkum ágreiningi til dómstóla eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi.“

Viljayfirlýsingin er eins og kunnugt er undirrituð af hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi seðlabankastjóra. Íslendingar féllu aldrei frá sínum lagalega rétti og hafa aldrei gert. Þegar þingsályktunartillaga sú sem þessi samningagerð átti að byggja á var samþykkt 5. desember 2008 kom berlega fram af hálfu meiri hluta utanríkismálanefndar að eðlilegt væri við þessar aðstæður sem uppi eru að leita pólitískra lausna og reyna að semja við viðsemjendur Íslendinga um lausn sem ekki yrði Íslendingum of þungbær. Allt er þetta gert á grunni vinnu sem hafði verið unnin í Brussel nokkrum dögum eða hálfum mánuði fyrr, svokallaðra Brussel-viðmiðana þar sem Frakkar komu okkur nokkuð til bjargar í viðskiptum okkar við Hollendinga og Breta. Meiri hluti utanríkismálanefndar greinir frá því í nefndaráliti sínu 5. desember og hnýtir nokkuð í þá þingsályktunartillögu sem þáverandi ríkisstjórnarflokkar höfðu lagt fram einmitt til að leggja áherslu á að jafnvel þótt Íslendingar hefðu kosið að leita pólitískrar lausnar hefðu þeir ekki fallið frá sínum rétti um nokkurn skapaðan hlut ef samningarnir yrðu þess eðlis að þeir yrðu okkur Íslendingum þungbærir. Allt skal þetta sagt hér svo hlutirnir séu í réttu samhengi.

Síðan fékk önnur ríkisstjórn það verkefni að hrinda þessum samningaviðræðum í gang. Eins og við þekkjum varð langt hlé frá því að fyrrverandi ríkisstjórn fór frá völdum og þangað til ný samninganefnd tók við undir forustu hæstv. fjármálaráðherra. Í erindisbréfi þeirrar samninganefndar er ekki gert mikið úr þeim vilja Alþingis að taka skyldi til greina þessi svokölluðu Brussel-viðmið og þá fordæmalausu stöðu sem Íslendingar eru í. Þegar samningarnir svo komu heim varð ljóst að þeir voru og eru okkur Íslendingum afskaplega þungbærir. Það var úr nokkuð vöndu að ráða fyrir flokka í stjórnarandstöðu hvernig staðið skyldi að þegar svo var komið. Auðvitað átti ríkisstjórnin ekki að skrifa undir samninga sem hún hafði ekki tryggan meiri hluta fyrir á þingi. Menn gera ekki svoleiðis og maður spyr sig að því hvaða verkefni flokkur í stjórnarandstöðu hafi við slíkar aðstæður. Það er eðlilegt að við sjálfstæðismenn séum spurðir að því af hverju við höfum í sumar kosið að reyna að koma málunum upp úr þessum hjólförum. Mér finnst það eðlileg spurning og auðvitað verðum við að svara henni.

Ég segi, og hef sagt áður í þessari umræðu, að það var dæmalaust að þessir samningar skyldu vera undirritaðir þegar fyrir lá að mat stjórnarandstöðunnar var að þeir væru ekki þess eðlis að við gætum á þá fallist. Þá lá líka fyrir að innan stjórnarflokkanna var mikil ólga. Þegar meiri hluti tveggja flokka er við völd á ekki að skipta nokkru máli hvað stjórnarandstöðunni finnst. Menn eiga að hafa sinn trygga þingmeirihluta og vinna samkvæmt honum en engu að síður kaus ríkisstjórnin, þá orðin meirihlutastjórn en hafði áður verið minnihlutastjórn og farið í þetta samningaferli með stuðningi Framsóknarflokksins, að undirrita þessa samninga og umræðurnar fóru í gang í sumar. Frá upphafi var ljóst að engar hugmyndir voru uppi af hálfu þeirra sem stýrðu skútunni að gera breytingar á nokkrum sköpuðum hlut hvað þessa samninga varðaði. Þeir skyldu samþykkjast óbreyttir. Þeir skyldu samþykkjast eins og skot. Menn skyldu bara átta sig á því hvaða þýðingu þetta hefði, hvaða fortíð það hefði o.s.frv.

Öll þessi vinna sem fram hefur farið í sumar hefur snúist um að reyna að fá hæstv. ríkisstjórn til að átta sig á því að þessir samningar, eins og þeir lágu fyrir, voru óaðgengilegir fyrir Íslendinga. Ég er sannfærð um, jafnvel þó að menn hafi þráast við í upphafi, að það hefði endað með því að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu komið þessum samningum í gegn. Þá stendur sú spurning eftir: Er tilraunarinnar virði að reyna að hafa áhrif á okkar umræðu, sem fer í gang innan þingsins þegar þingmenn tala saman um það hvernig hlutirnir snúa — er tilraunarinnar virði að reyna að hafa áhrif á þetta mál þannig að það verði Íslendingum ekki of þungbært? Ef samningarnir yrðu samþykktir óbreyttir án nokkurra athugasemda af nokkrum toga værum við öll á sama báti með að greiða af þessum skuldum en ég held að það yrði okkur afar þungbært, svo ekki sé meira sagt.

Fjárlaganefnd hefur unnið að þessu máli í sumar undir stöðugum kveinkunarorðum um að þetta þyrfti að ganga betur. Brýn verkefni biðu vegna þess að menn gætu ekki klárað þetta Icesave-mál, það ætti að klára málið á morgun eða hinn daginn og það lægi mikið á. Ég tel að allan þennan tíma hafi málið snúist um að reyna að fá hv. þingmenn Samfylkingarinnar til að skilja að þetta mál væri þess eðlis að á því yrði að gera breytingar. Þessi nýja söguskýring sem hefur látið á sér kræla síðustu daga, um að Samfylkingin hafi ávallt viljað gera fyrirvara, á ekki við rök að styðjast, a.m.k. ekki gagnvart því að það hefði átt að skipta einhverju máli. Með þennan forgrunn varð niðurstaðan til hjá meiri hluta fjárlaganefndar á föstudaginn var. Þegar öllu var á botninn hvolft tókst meiri hluta fjárlaganefndar, ríkisstjórnarflokkunum, með því að þvæla málinu áfram í sumar og reyna að leiða mönnum fyrir sjónir þá umtalsvert mörgu galla sem á samningunum eru, loksins að taka þetta mál út úr fjárlaganefnd með ákveðnum breytingartillögum.

Afstaða okkar sjálfstæðismanna í sumar hefur verið sú að nauðsynlegt væri fyrir ríkisstjórnina að taka þetta mál aftur inn til sín, það væri ekki tækt til samþykktar á þinginu. Ljóst var að sú skoðun naut ekki fylgis í þeirri vinnu sem fram fór í fjárlaganefnd en henni var haldið á lofti. Þar var líka haldið á lofti þessum lagalegu sjónarmiðum sem ég fór örlítið yfir áðan. Niðurstaðan er nefnilega að meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert ákveðna tillögu að breytingum. Það er ekkert launungarmál að þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðja þessar breytingartillögur og hafa haft mikið um það að gera hvernig þær urðu til og hvernig þær líta út. Þetta er að mörgu leyti óvenjulegt að því leyti en þetta skiptir allt saman mjög miklu máli. Hv. þm. Oddný Harðardóttir lýsti því áðan að hún hafi verið nokkuð ánægð með samninginn eins og hann var. Ég held að flestir hafi ekki verið sammála því.

Margar áleitnar spurningar komu upp í vinnu fjárlaganefndar, ekki síst um hvernig okkur mundi ganga að greiða af skuldinni. Þá voru margir hagfræðingar leiddir fyrir fjárlaganefnd og eins og við vitum er stundum ekki gott að vita hvað hagfræðingarnir eru raunverulega að segja en eitt er klárt: Með alls konar reiknikúnstum má finna út að hægt sé að borga ýmislegt en í mínum huga hefur það ekki verið sú spurning sem rétt væri að spyrja. Það getur vel verið að hvaða heimili sem er geti borgað ýmsar skuldir sem á það eru lagðar en þá þarf að velta fyrir sér hverju á að sleppa á móti. Hverju eigum við að sleppa á móti í rekstri heimilisins til að geta greitt þær skuldir sem á heimilið eru lagðar? Mér finnst miklu nær að spyrja að því hvaða fórnir þurfi að færa til að greiða skuldina. Hvað þýðir það að taka skuldirnar á sig, vitandi að þetta er ekki eina skuldin sem á Íslandi hvílir? Þær eru miklu meiri en þessi skuld og við verðum að líta á þetta allt í samhengi. Þess vegna tel ég að með því að aðlaga greiðslurnar getu Íslendinga sé miklum áfanga náð. Ég held að sú vinna sem átti sér stað meðal þingmanna úr öllum flokkum hvaðanæva í þinginu, inni í flokkum og úti um allt, sé grunnurinn að því sem hér er á borðinu um að reyna að gera þetta þannig að Íslendingar muni geta staðið undir því.

Nú skulum við sjá hvernig þessu máli reiðir af en þetta er bara eitt af því sem þarf að gera. Mín miklu vonbrigði í sumar voru þau að þegar fyrir lá að erfitt yrði eða jafnvel ómögulegt að koma þessu máli í gegnum þingið fannst mér að hæstv. ríkisstjórn ætti strax að tala við viðsemjendurna um að þessir samningar væru of þungir fyrir þjóðina og Alþingi treysti sér ekki til að samþykkja þá. Ég held í raun og veru að allar götur frá því að þessir erfiðleikar riðu yfir þjóðina, og ég skal ekki skilja neina ríkisstjórn undan í því, hefðu menn átt að vera duglegri við að tala við alþjóðasamfélagið um þann vanda sem uppi er á Íslandi. Ég held að við þurfum öll að gera það og ríkisstjórnin á hverjum tíma á að passa upp á það. Ég held að við svona alvarlegar aðstæður sem núna eru á Íslandi og í öllum löndum þar sem slíkir atburðir verða sé mjög mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að leita þeim sjónarmiðum sem eru uppi í landinu fylgis. Í því efni skiptir miklu máli að bandamenn þjóðarinnar skilji hvað hún er að tala um. Það er ekki nóg að segja við fólk: Ja, þetta ákveðna mál veldur okkur vandræðum. Menn verða að skilja af hverju þetta er svona mikið vandamál fyrir okkur, fyrst við erum alltaf að tala um að við viljum standa við það sem við segjum. Hvað er það sem veldur þessum mikla vanda? Það er erfitt að átta sig á því. Úr slíku verður ekki leyst með því að tala við fólkið. Það verður að tala við þessar þjóðir sem við eigum í viðræðum við.

Hæstv. forsætisráðherra upplýsti í dag að hún hefði talað við framkvæmdastjóra NATO um þetta mál í dag. Það er aldeilis ljómandi gott. Þá var hún að kvarta undan því harðræði sem Bretar sýndu Íslendingum þegar þeir lögðu hryðjuverkalögin á okkur. Óhætt er að segja að það var með ólíkindum hvernig þeir komu fram við okkur en mér finnst hins vegar nokkuð seint í rassinn gripið að fara að ræða þetta við framkvæmdastjóra NATO í dag. Mér finnst samt ljómandi gott að menn séu byrjaðir að tala um þessa hluti og eins og ég sagði áðan, það stendur upp á hvaða ríkisstjórn sem er, líka upp á fyrri ríkisstjórnir. Ég ætla ekki að draga úr því.

Það er ótrúleg frekja af Bretum að koma svona fram við Íslendinga og algerlega tilhæfulaust að leggja hryðjuverkalög á þjóðina. Mér finnst athugunarefni hvernig í ósköpunum stendur á því að Bretar og Hollendingar gátu beitt sér eins og þeir gerðu gagnvart Íslendingum hvar sem við komum, að við skyldum hafa þurft ítrekað að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að honum bæri að koma til hjálpar. Íslendingar eru stofnaðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það var náttúrlega óskaplegt áfall fyrir alla að átta sig á því að menn skyldu beita sér með þessum hætti í algerlega óskyldu máli. Þetta Icesave-mál kemur þeim ekkert við hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvernig þetta mál var í pottinn búið í haust. Þetta fer fyrir brjóstið á hvaða Íslendingi sem er. Ég held að það sé athugunarefni að kanna hvernig á þessu stendur.

Mér finnst ástæða til þess, með leyfi hæstv. forseta, að grípa aðeins niður í lokin á 1. minnihlutaáliti fjárlaganefndar þar sem segir:

„Rétt er að minna á að Íslendingar verða að fara fram á rannsókn hið fyrsta á því hvernig það mátti vera að hægt var að misbeita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum síðastliðið haust í þágu þriggja aðildarríkja á kostnað eins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er stofnun sem ekki tekur þátt í tvíhliða deilum og það er ekki í anda stofnsamningsins sem samþykktur var í Bretton Woods í júlí 1944 að beita sjóðnum eins og gert var síðastliðið haust til að þvinga Ísland til gangast undir að greiða fyrir Icesave-ósómann.“

Við skulum aldrei gleyma því hvernig þessar þjóðir höguðu sér en við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að í þeirri þröngu stöðu sem þetta mál er komið í verðum við að leita að þeim kostum sem eru bestir fyrir þjóðina. Ég held að það sé tími til kominn. Jafnvel þótt við komum okkur í gegnum þetta mál og jafnvel þótt Bretar og Hollendingar, hvernig sem þeir bregðast við — ég á ekki von á öðru en þeir muni reka upp stór augu þegar þeir komast að því að við ætlum ekkert að borga þegar hagvöxtur er núll, þá ætlum við ekki að greiða afborgunina. Ég á ekki von á því að þeir muni taka því sérstaklega létt en þá vil ég segja: Komið þið bara. Við munum ekki gefa okkur með nokkurn skapaðan hlut gagnvart þeim. Við höfum lagt okkar tilboð á borðið um þetta. Þetta er það sem við getum gert. Þetta er það sem Alþingi Íslendinga segir. Annaðhvort fallist þeir á þetta svona og við getum greitt þetta eða þeir verða að koma hingað og ræða við okkur um hvernig við eigum að loka þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)