137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:16]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni finnst mér mjög mikilvægt að við komum þeim skilaboðum áleiðis til Breta og Hollendinga að við viljum standa við skuldbindingar okkar. Með því að vísa þessum samningum frá tel ég að Bretar og Hollendingar gætu túlkað það þannig að við ætluðum ekki að standa við skuldbindingarnar og fengju til liðs við sig aðrar þjóðir í Evrópu sem túlkuðu það þá á sama veg.

Ég tel því skárra að samþykkja þessa ríkisábyrgð með fyrirvörum sem þá nokkurs konar yfirlýsingu um það að við viljum standa við skuldbindingar okkar og tel mjög mikilvægt að allt Alþingi standi á bak við þessa fyrirvara til þess að styrkja samningsstöðu okkar gagnvart Bretum og Hollendingum.