137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú liggur það fyrir að í samningsumboði þeirrar nefndar sem hefur haft með samningana um Icesave að gera var hlutverk hennar ekki skilgreint að fullu til samræmis við ályktun Alþingis frá því síðasta haust þar sem m.a. var vísað til hinna svokölluðu Brussel-viðmiða.

Það er alveg ljóst mál að hefði það hins vegar verið gert hefði það auðvitað þrengt mjög samningsumboð þeirrar nefndar sem við sendum til þess að reyna að leiða til lykta þessa samninga við Hollendinga og Breta. Nú bregður hins vegar svo við að í breytingartillögum meiri hlutans er sérstaklega vísað til þessa. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann að því, um leið og ég þakka henni fyrir mjög efnislega og góða ræðu, hvort hún sé ekki sammála mér um að skynsamlegra hefði verið að vísa sérstaklega til þessara samningsviðmiða sem samkomulag var um í því skyni að tryggja það að sú samningsniðurstaða sem við vildum leitast eftir yrði meira í samræmi við ályktun og vilja Alþingis eins og hann birtist (Forseti hringir.) frá því á sl. hausti?