137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst undirstrika það að ég hef aldrei gagnrýnt í sjálfu sér verkefni eða verklag samninganefndarinnar. Samninganefndin hefur auðvitað starfað í umboði ríkisstjórnarinnar og ef við einhvern er að sakast er það auðvitað ríkisstjórnin. Það er ríkisstjórnin sem markaði samningsumboðið og markaði auðvitað verkefnin sem samninganefndin hafði síðan úr að vinna.

Það sem mér finnst vera mjög alvarlegt er að ekki skuli hafa nákvæmlega komið fram í samningsumboðinu sem ríkisstjórnin veitti þessari nefnd hvert verkefnið væri og hvaða umboð hún hefði. Það er einfaldlega þannig að Alþingi fór yfir þessi mál mjög rækilega síðasta haust. Niðurstaða Alþingis var sú að ganga til þessara samninga þrátt fyrir að ágreiningur væri um það hvort við bærum þessar skuldbindingar eða ekki. Þetta var hins vegar gert við tilteknar aðstæður og í ljósi þess að við settum okkur þessi tilteknu viðmið sem höfðu verið umsamin á sínum tíma, Brussel-viðmiðin.

Þess vegna tel ég að það sé mjög alvarlegt þegar það liggur fyrir og hefur raunar komið fram, m.a. af hálfu aðstoðarmanns fyrrverandi utanríkisráðherra, að í umboðsbréfinu sem ríkisstjórnin veitti samninganefndinni var einfaldlega ekki vísað til þessa mikilvæga ákvæðis.