137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég get fullvissað hv. þingmann um að í fjárlaganefnd fór yfirleitt alltaf fram bæði efnisleg og málefnaleg umræða um þetta mál. Hún talar um lagalega óvissu og vitnar svo í framhaldi af því í þennan dóm sem okkur var bent á af fulltrúa Samtaka sveitarfélaga. Það liggur alveg ljóst fyrir og kemur fram í textanum að það er lagaleg óvissa um þessa Evróputilskipun. Við höfum alla tíð haldið því fram Íslendingar, og það kemur fram í okkar nefndaráliti, að það er lagaleg óvissa um hvort ríkisábyrgð sé á innstæðutryggingum samkvæmt tilskipuninni. Lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal hafa bent á það í góðum greinum, sem eru reyndar fylgigögn okkar með 1. minnihlutaáliti. Þeir hafa líka sagt að lagaleg óvissa sé vegna þess að ef það væri ríkisábyrgð á innstæðutryggingunum mundi það stangast á við hugsanleg samkeppnislög Evrópusambandsins, því eins og þeir útlistuðu er ríki ekki sama og ríki. Það er ekki sama hvort þú ert með lítið ríki eða stöndugt ríki sem er þá með ríkisábyrgðina.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að lagaleg óvissa liggur fyrir um þetta og við höfum líka haldið því til haga í okkar áliti að menn hafa ekki fallið frá því að leita hugsanlega réttar síns seinna. Eins kemur fram í breytingartillögunum að því er haldið þar áfram inni en það er rétt að það ríkir lagaleg óvissa um þetta.