137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem er í raun og veru gjörólíkt því sem við vorum að fjalla um á sínum tíma þegar hér var til 1. umr. það frumvarp sem liggur til grundvallar því máli sem nú er til umfjöllunar. Það eru einfaldlega mjög ólík mál vegna þess Alþingi eða meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis hefur ákveðið að leggja málið fyrir Alþingi að nýju í gjörbreyttu formi. Það breytir engu þó að menn reyni að rembast eins og rjúpan við staurinn og reyni að útskýra það fyrir okkur að við séum hér að fjalla um mál sem sé samrýmanlegt þeim samningi sem undirritaður var við Hollendinga og Breta. Það sér það hver einasti lifandi maður sem skoðar þessi mál og ber saman þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur kynnt og ræddar hafa verið í dag við það frumvarp sem rætt var í byrjun júlímánaðar þá blasir það auðvitað við að hér er verið að leggja til grundvallarbreytingar á þeirri niðurstöðu sem fékkst í samningaviðræðum Íslendinga við Hollendinga og Breta.

Það frumvarp sem lagt var fram og rætt um mánaðamótin júní/júlí var býsna stuttaralegt þó að það fjallaði um mikilvægt mál og stórt mál og fæli í sér gríðarlega miklar skuldbindingar gagnvart Íslendingum, en það mál sem við erum núna að fjalla um í 2. umr. hefur tekið þeim stakkaskiptum að búið er að leggja inn í það mjög miklar breytingar sem við tökum afstöðu til þegar greidd verða atkvæði um einstakar breytingartillögur.

Það er nauðsynlegt að rifja þetta aðeins upp og átta sig á því hvernig þetta mál hefur borið að upp á síðkastið í þinginu. Það var ætlun ríkisstjórnarinnar að fá Alþingi til þess að fallast á það frumvarp sem lagt var fram um mánaðamótin júní/júlí, kynnt lauslega í þingflokkum í byrjun júnímánaðar og lagt síðan inn í þingið í lok þess mánaðar. Það fer ekkert á milli mála þegar við förum yfir þessa umræðu, bæði þá umræðu sem fór fram hér við 1. umr. málsins og einnig þær umræður sem hafa farið fram í þingsölum og ég tala nú ekki um úti í þjóðfélaginu, að það blasir auðvitað við og það sjá allir að það var ætlun ríkisstjórnarinnar að gera sem minnstar og helst engar breytingar á því frumvarpi. Frumvarpið sem var lagt fyrir þingið á sínum tíma var sú afurð sem ríkisstjórnin vildi fá samþykkta. Það sem síðan hefur verið að gerast er að myndast hefur nýr meiri hluti í rauninni í þessu máli. Ríkisstjórnarmeirihlutinn féll má segja í þessu máli vegna þess að það myndaðist nýr meiri hluti um málið sem knúði á um þær breytingar sem við erum núna að ræða um.

Það er alveg ljóst að þetta gerðist ekki átakalaust. Í upphafi þegar þessi mál komu til umræðu vísaði ríkisstjórnin og talsmenn hennar nánast öllu því frá sér sem lagt var á borð og bent var á að gæti orðið til að bæta málið. Sú niðurstaða sem við erum núna að ræða er þess vegna í blóra við vilja þeirra. Ef ríkisstjórnin hefði fengið vilja sínum framgengt værum við að tala hér um niðurstöðu sem væri gjörólík þeirri sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur núna lagt á borð fyrir okkur þingmenn. Þessu er mjög mikilvægt að átta sig á. Ríkisstjórnin vildi ekki þær breytingar sem við erum núna að ræða um. Ríkisstjórnin vildi í mesta lagi gera fegrunaraðgerðir á þessu frumvarpi til þess að reyna að bjarga sínu eigin andliti út úr þessari umræðu.

Það kastaði auðvitað fyrst tólfunum þegar, eins og hér hefur komið fram í umræðunni í dag, þingið, Alþingi Íslendinga, sem átti að taka afstöðu til þessarar ríkisábyrgðar átti ekki einu sinni að fá að sjá samninginn sem liggur til grundvallar þeirri ríkisábyrgð og því frumvarpi sem hér er verið að ræða um. Það var þannig að menn áttu helst að greiða atkvæði blindandi um þessi mál án þess að geta séð þetta. Þetta kemur manni þannig fyrir sjónir að stjórnarliðar, þ.e. sá hluti stjórnarliða sem vildi fá málið samþykkt óbreytt, voru dregnir æpandi og sparkandi að þessu borði gegn vilja sínum. Þetta mál var kynnt í þingflokkunum 4. júní. Nú er kominn 20. ágúst og ástæðan fyrir því að þetta mál hefur dregist er auðvitað í fyrsta lagi sú að þetta er flókið mál og mál sem þarf að liggja vel yfir. Þetta er mál þar sem þurfti að draga fram upplýsingarnar með töngum út úr mönnum þar sem ekki einu sinni átti að leggja fram samninginn sjálfan. Og í þriðja lagi voru auðvitað pólitísk átök um þær breytingar sem við erum að ræða núna. Ríkisstjórnin og sá hluti stjórnarliða sem studdi hana í þessu máli vildu ekki þessar breytingar, meiri hluti fjárlaganefndar knúði hins vegar á um þær. Þar var við ramman reip að draga sem var ríkisstjórnin og meiri hluti hennar en sem betur fer tókst að fá fram tilteknar breytingar, fyrirvara, skilyrði við samninginn sem örugglega verður mikið hald í.

Það er líka mjög sérkennilegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skyldi láta sig hafa það að undirrita þennan samning vitandi að ekki var pólitískur þingmeirihluti fyrir málinu á Alþingi. Það kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan að þrír þingmenn Vinstri grænna hefðu lýst því yfir að ríkisstjórnin hefði ekki umboð þeirra til að undirrita þennan samning. Þar með lá það fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti í þessu máli var ekki til staðar. Það er mjög alvarlegur hlutur þegar ein ríkisstjórn gerir það að ganga frá samningi af þessu taginu við aðrar þjóðir, ég tala nú ekki um samning af þessari stærðargráðu, vitandi að ekki væri pólitískur meiri hluti fyrir málinu. Það var ekki álitamál hvort það væri pólitískur meiri hluti, það lá fyrir að hann var ekki fyrir hendi. Engu að síður ákvað hæstv. ríkisstjórn að ganga til samninga og undirrita samninga í blóra við ætlaðan vilja meiri hluta Alþingis Íslendinga. Á sama tíma og þetta gerist er verið að tala um að ná þurfi breiðri pólitískri samstöðu í málinu þegar það liggur fyrir að sú samstaða var ekki einu sinni til í hópi stjórnarliða sjálfra.

Ríkisstjórnin kaus sér þetta vinnulag. Það var ríkisstjórnin sem ákvað að leita ekki eftir breiðri pólitískri samstöðu um málið í undirbúningi sínum. Þetta var ekki gert af einhverri slysni, þetta var ekki gert af einhverri vangá, þetta var meðvituð pólitísk ákvörðun um það að hafa þetta mál á forræði ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarinnar einnar. Það var sett niður ný samninganefnd á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og auðvitað er ekkert við því að segja. Það kom glögglega fram líka í 1. umr. þessa máls af hálfu stjórnarliða og hæstv. fjármálaráðherra og utanríkisráðherra að þeir töluðu þannig að þetta átti greinilega að vera þeirra mál enda er það svo að þetta er mál ríkisstjórnarinnar eða hluta hennar.

Þetta eru algjörlega óviðunandi vinnubrögð. Það er auðvitað eðlilegast í máli af þessu taginu, sem er í eðli sínu átakamál og umdeilt mál, stórt mál þar fyrir utan, þá er auðvitað eðlilegt að reyna að leita eftir breiðri pólitískri samstöðu. Það var ekki gert. Hins vegar var komið í fullt óefni vegna þess hvernig að þessu máli hafði verið staðið, stjórnarmeirihlutinn réð ekki við það og þingið, meiri hluti fjárlaganefndar tók það í raun og veru í sínar hendur.

Ríkisstjórnin fór í þetta mál algjörlega vanbúin. Ég hef ekki gagnrýnt samninganefndina sjálfa. Samninganefndin var hins vegar að vinna í umboði ríkisstjórnarinnar. Það var ríkisstjórnin sem veitti henni samningsumboð, það var ríkisstjórnin sem sagði henni auðvitað hvað hún ætti að gera. Í þessum efnum var þessi samninganefnd eins konar framlengdur armur ríkisstjórnarinnar og starfaði í umboði hennar og það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á niðurstöðunni. Vandinn sem samninganefndin þurfti m.a. við að glíma var samningsumboðið sjálft.

Það er athyglisvert sem kemur fram í blaðagrein eftir fyrrverandi aðstoðarmann hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Kristrúnu Heimisdóttur í Morgunblaðinu 13. ágúst sl. þar sem hún segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ljóst er af erindisbréfi að verkefni nýrrar samninganefndar um Icesave var aldrei skilgreint til fulls í samræmi við ályktun Alþingis.“

Þetta er auðvitað alvarlegur hlutur vegna þess að Alþingi á sínum tíma sl. haust markaði þessa vegferð, ákvað það í fyrsta lagi vegna þeirra þröngu aðstæðna sem við vorum í og í öðru lagi með skírskotun til tiltekinna viðmiða sem höfðu fengist samþykkt að við leituðum samninga við aðrar þjóðir. Þess vegna er það mjög alvarlegt sem kemur fram í þeirri blaðagrein sem ég vitnaði til að samninganefndin hafi ekki fengið það umboð sem Alþingi var í raun og veru að veita með samþykkt sinni síðasta haust.

Nú er því haldið fram að þær miklu breytingar sem hafa verið gerðar á þessu máli í meðförum Alþingis breyti engu um samninginn. Þetta verð ég að segja að er stórfurðulegur málflutningur. Það er eins og menn líti þannig á að sá samningur sem var gerður við Breta og Hollendinga sé eins konar blaðra sem menn geti bara blásið í og teygt og togað í allar mögulegar áttir, að hann sé ekki gerður úr venjulegu efni heldur úr einhvers konar tyggigúmmíi sem hægt sé að toga og teygja. Það blasir við að gerðar eru athugasemdir við lögfræðilega þáttinn, það eru gerðir fyrirvarar og skilmálar og skilyrði varðandi hagfræðilega og efnislega þáttinn, það er haldið til haga málum sem snúa að því að halda uppi rétti okkar til málsóknar og það er kveðið á um hluti sem lúta að fullveldisákvæði Íslendinga, þá tala menn um það, þrátt fyrir að hér sé verið að gera þessar grundvallarbreytingar, að þetta séu bara einhvers konar minni háttar hlutir, einhvers konar varnaglar, minnir mig að hæstv. forsætisráðherra hafi kallað það í dag, þegar verið er að toga þetta og teygja og auðvitað að gera grundvallarbreytingar á þessu mikla máli.

Það er alveg ljóst mál, virðulegi forseti, sem blasti við okkur að af hálfu Breta og Hollendinga ríkti fullkomin harka og óbilgirni og ósanngirni á alla vegu gagnvart okkur alveg frá fyrsta degi, alveg frá því að hryðjuverkalögunum var beitt á okkur í haust. Þessi harka, óbilgirni og ósanngirni af hálfu þessara þjóða hélt áfram í samningunum líka núna í vetur. Til að kóróna sköpunarverkið og til að sýna fyrirlitningu sína á okkur, til þess að strá salti í sárin og snúa hnífnum í sárinu var ákveðið svona í lokin, þegar búið var að fá okkur til þess að fallast á þessa afarkosti samninganna eins og þeir blöstu við okkur núna í júní, þá var það ákveðið að rukka okkur sérstaklega um einhvern umsýslukostnað við gerð samninganna og við kostnað í sambandi við Icesave-innlánin. Þetta er ótrúlegt. Þeir sem svona vinna eru auðvitað að senda skilaboð um það hvernig þeir líta á okkur sem samningsaðila sína. Ég er mest hissa á því að ekki skuli hafa fylgt með í þessu kaffireikningar eða kannski reikningar fyrir leigubíla eða eitthvað þess háttar sem auðvitað var sannarlega hluti af samningskostnaði Breta og Hollendinga, en það hefði náttúrlega verið í samræmi við annað að ríkisstjórnin hefði síðan tekið því. Það var ótrúlegt að hlusta á það og veita því athygli að bæði hæstv. fjármálaráðherra og hans menn fóru í það að verja þennan fantaskap Breta, þetta signal, foragtarsignal sem Bretar voru að sýna okkur með þessum hætti.

Ef það er þannig, sem hér er haldið fram, að þessi ákvæði sem nú er verið að breyta varðandi samningana rúmist innan þeirra samninga sem gerðir voru í júnímánuði milli Íslendinga og Breta og Hollendinga vaknar óhjákvæmilega ein spurning og hún er þessi: Hvers vegna í dauðanum var þá ekki samið um þessa hluti strax? Sé það svo að þetta rúmist allt saman innan samningsins hefði þá ekki verið ástæða til þess að kveða á um það strax í samningunum þegar þeir voru gerðir? Það er auðvitað augljóst mál að þetta eru svo veigamiklir hlutir að það hefði verið ástæða til þess að hafa þá inni í samningunum frá upphafi máls.

Sá samningur sem hér liggur fyrir hefur verið kallaður gagntilboð eins og hann liggur fyrir núna í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, hefur verið kallaður gagntilboð af lögmönnum. Ég hlustaði síðast í útvarpinu núna rétt fyrir kvöldfréttirnar á viðtal við Ragnar H. Hall, sem oft hefur komið við sögu í þessari umræðu, þar sem hann segir að þetta sé gagntilboð í eðli sínu og vísar auðvitað til þess að í samningunum sjálfum er bókstaflega kveðið á um það að áður en ábyrgðin sé veitt verði að uppfylla tiltekin skilyrði. Nú erum við að setja þessi skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni sem þrengja auðvitað málið með þeim hætti að það er augljóst að málið er komið í allt aðra og nýja stöðu.

Það er áhugavert þegar þetta mál er rifjað upp að undirstrika með hvaða hætti menn brugðust við þeirri málefnalegu gagnrýni sem kom á niðurstöðu samninganefndarinnar, niðurstöðu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarmeirihlutans á sínum tíma. Í stað þess að reyna að bregðast nú jákvætt og uppbyggilega við í anda þess að ná ætti breiðri samstöðu um málið var það alltaf þannig í hvert einasta skipti sem vakin var athygli á veikleikum þeirrar samningsniðurstöðu sem fékkst hér í júlímánuði að talsmenn ríkisstjórnarinnar reyndu að vísa þessu öll frá, kasta öllu út í hafsauga, láta það líta þannig út að allar þær ábendingar sem höfðu komið fram af hálfu lögmanna til að mynda og margar úr fræðasamfélaginu og ég tala nú ekki um hér á Alþingi, það var allt talað niður og reynt að gera sem minnst úr þessu. Einnig þegar til að mynda Ragnar H. Hall, Eiríkur Tómasson, Hörður Felix Harðarson og fleiri fóru að benda á að sennilega og augljóslega hefðu verið gerð mjög afdrifarík mistök varðandi skuldaröðunina þegar kæmi að uppgjöri á þrotabúi Landsbankans.

Hér var þó ekki um að ræða neina smápeninga, hér var um að ræða hundruð milljarða króna sem gátu verið í húfi. Engu að síður töldu menn svo mikilvægt að reyna ekki bara að bjarga þessum samningi heldur heiðri samninganefndarinnar og ríkisstjórnarinnar að það var brugðist þannig við að reynt var að ýta öllu út af borðinu, jafnvel ábendingum eins og þessum sem þó voru mjög vel rökstuddar.

Sama var varðandi efnahagslega þátt málsins, sem er gífurlega mikilvægur. Það sem maður sér varðandi efnahagslega þáttinn er að þar er ekki allt sem sýnist við fyrstu sýn. Í fyrsta lagi var lögð fram skýrsla af hálfu Seðlabanka Íslands. Með eftirgangsmunum var síðan ákveðið að fá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að leggja mat á málið og þá blasti það auðvitað við, sem mátti út af fyrir sig lesa líka með góðum vilja út úr mati Seðlabankans, að það er uppi gífurlega mikil óvissa í þessu máli. Óvissan lýtur bæði að uppgjörinu á þrotabúi Landsbankans, hún lýtur líka að framtíðarefnahagshorfum okkar. Það sem stendur upp úr í niðurstöðu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands — sem að mínu mati skiptir miklu máli fyrir þessa umræðu — er að við erum að tala hér um hættu eða áhættu sem getur hlaupið á hundruðum milljarða kr. eftir því hvernig það er reiknað. Það er þessi áhættuþáttur sem gerir það vitaskuld algjörlega óhjákvæmilegt að setja inn í þessa samninga sterka efnahagslega fyrirvara til þess að tryggja það að við sitjum ekki, Íslendingar, einir uppi með áhættuna í þessu máli. Þeir fyrirvarar sem nú eru settir inn í þetta mál, þessi skilyrði sem eru sett fyrir því að hægt sé að veita ríkisábyrgð lúta að því að við borgum ekki nema tiltekið hlutfall af hagvaxtaraukningunni á næstu árum þannig að við getum tryggt að þjóðarbú okkar geti betur ráðið við þessa samninga.

Það er auðvitað má segja út af fyrir sig akademísk spurning miðað við þá samninga sem voru kynntir fyrir okkur af hálfu ríkisstjórnarinnar í júní hvort við hefðum ráðið við þessar skuldbindingar. Það ræðst algjörlega af því hvernig okkur gengur að innheimta úr búi Landsbankans, það ræðst af því hvernig efnahagsleg framvinda verður o.s.frv. Þess vegna var það auðvitað óðs manns æði að ætla sér að skuldbinda okkur, skuldbinda þjóðina, skuldbinda Alþingi og skattborgarana til lengri tíma án þess að hafa einhverja fyrirvara sem hald væri í. Þess vegna, virðulegi forseti, var þetta gífurlega mikilvægt og er einn af grundvallarþáttunum, og það er örugglega rétt sem prófessor Michael Hudson sagði, að þetta eru tímamótaákvæði sem margar þjóðir eiga eflaust eftir að taka upp síðar.

Virðulegi forseti. Tími minn er bráðlega á þrotum. Ég ítreka að ég tel að það hafi verið einhver stærstu pólitísku mistök þessarar ríkisstjórnar að leita ekki eftir breiðari pólitískri samstöðu um þetta þegar í upphafi. Þess í stað máttum við lúta því að taka þátt í hörðum pólitískum umræðum um þessi mál, reyna að draga stjórnarliða æpandi og sparkandi að samningaborðinu til þess að tryggja að við næðum viðunandi niðurstöðu sem skiptir okkur miklu. Það er engin spurning um það að málið hefur batnað mikið í meðförum Alþingis og er til marks um það að Alþingi tók völdin af ríkisstjórninni í þessu efni sem betur fer.