137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða eitt af þeim stóru málum sem þetta þing hefur þurft að glíma við, annað af tveimur stærstu málunum alla vega, og full ástæða er til að þingmenn gefi sér tíma til að reifa sínar skoðanir og annað sem máli skiptir í umfjöllun um þetta mál. Það hefur vakið athygli mína í þessari umræðu að þrátt fyrir mikla og góða vinnu í fjárlaganefnd og öðrum nefndum sýnist mér að enn eigi eftir að skýra ákveðna hluti. Ég segi fyrir mig persónulega að þegar ég mætti í þingsal í morgun hafði ég ímyndað mér að það væri komin góð mynd á hvernig málið lægi, hvað bæri að gera, varast og slíkt, en enn eru að koma upp spurningar sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér og mikilvægt fyrir þingið að fá svör við.

Ég vil í upphafi máls míns þakka þeim sem hafa komið að þessu máli. Ég vil þakka fjárlaganefndarmönnum, utanríkismálanefnd, efnahags- og skattanefnd og öðrum sem hafa unnið að þessu máli. Ég veit að það hefur verið mikil vinna á mannskapnum, ekki síst starfsfólki þingsins og þeim sem stýra bæði nefndum og öðru, og ég vil þakka þessu fólki. Ég vil líka þakka þeim sérfræðingum sem hafa látið sig málið varða og tjáð sig í dagblöðum og fjölmiðlum og síðast en ekki síst vil ég þakka hinum svokallaða Indefence-hóp fyrir að hafa staðið vaktina í þessu gríðarlega stóra máli. Ég held að það sé þarft fyrir okkur þingmenn að þakka íslensku þjóðinni fyrir að hafa látið okkur finna að henni er ekki sama hvernig við höldum á þessu stóra máli. Það er augljóst að þjóðin fylgist mjög vel með og hefur áhyggjur af því að verið sé að setja slíka klafa á hana að vart sjáist út úr og því er mjög mikilvægt að við þingmenn hlustum vel og vöndum okkur við það sem við erum að gera.

Í dag er búið að fara býsna mikið yfir sögu þessara Icesave-samninga, hvernig þeir eru til komnir og allt slíkt. Það er vægt til orða tekið að segja að það er mikil sorgarsaga hvernig þessi óskapnaður varð til. Það er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn í því, nema hugsanlega Borgarahreyfingin, sem er hægt að draga frá þegar við förum yfir dæmið og segjum að einhverjir beri ábyrgð eða ekki, eða hafi komið að málum með einhverjum hætti. Það er ekki hægt. Hins vegar er það þannig að þegar mest á reyndi voru tveir flokkar í ríkisstjórn Íslands. Það voru Sjálfstæðisflokkurinn og það var Samfylkingin. Þessir tveir flokkar voru í ríkisstjórn þegar hrunið varð, í aðdraganda þess og þegar mestu skipti hvernig ætti að bregðast við. Að mínu viti brugðust þessir flokkar í sínum viðbrögðum og þegar á þurfti að halda.

Ég ætla að viðurkenna að það sem hefur farið í taugarnar á mér við umræðuna um árin 2007, 2008 og byrjun árs 2009 er að einn stjórnmálaflokkur hefur haft mikið lag á því að reyna að koma sér undan allri ábyrgð í þessu máli. Það er Samfylkingin. Það er eins og hún hafi ekki verið til þegar þessi ósköp dundu yfir og þegar þurfti að bregðast við. Það er rétt að halda því til haga að þegar mest þurfti á að halda var það Samfylkingin sem hélt um taumana í þeim stjórnunarstöðum sem mestu skiptu. Þeir voru með viðskiptaráðherrann og þeir stjórnuðu í raun Fjármálaeftirlitinu. Það er mjög sérstakt að horfa upp á að þessi flokkur skuli komast í gegnum þessa umræðu nánast án þess að þurfa að útskýra sinn þátt og sína stöðu. Ég vona svo sannarlega að þegar sagan verður skoðuð, allt verður komið upp á borðið og öll bréf verða birt komi í ljós hversu mikinn þátt þessi ágæti stjórnmálaflokkur átti í aðdraganda hrunsins og þeim viðbrögðum sem á eftir komu. Það má enginn misskilja mig. Ég er ekki að draga úr þætti annarra, ég er ekki að draga úr þætti Sjálfstæðisflokksins. Hann var höfuð þessarar ríkisstjórnar og bar því ábyrgð á henni sem slíkri og þarf vitanlega að svara fyrir sinn þátt í því.

Kosturinn, ef það er einhver kostur við þennan óskapnað, er að við verðum að læra af þessu. Þetta er gríðarlega dýr skóli, dýr fyrir þjóðina og sársaukafullur fyrir marga stjórnmálamenn, en við skiptum minna máli en framtíð þjóðarinnar og það sem við munum læra af þessu. Það er einfaldlega þannig.

Það sem hefur farið fyrir brjóstið á okkur síðustu vikur og mánuði er hvernig unnið hefur verið úr hlutunum og þar ber sú ríkisstjórn sem nú situr hvað mesta ábyrgð. Það þýðir ekki að skjóta sér á bak við að sú ríkisstjórn hafi erft þessa hluti. Hún vissi nákvæmlega við hverju hún tók þegar hún sóttist eftir því að mynda ríkisstjórn og taka við völdum og koma þjóðinni út úr þessu. Hún vissi nákvæmlega út í hvað hún var að fara. Því miður er það mín skoðun að ekki hafi vel tekist til og í raun alveg ómögulega. Ríkisstjórnin hefur ekki valdið því hlutverki að koma okkur út úr þessari krísu og sá samningur sem var lagður fyrir í sumar er besta dæmið um það.

Það sem við höfum í höndunum í dag og erum búin að vera að fjalla um, nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar sem og minnihlutaálitin, undirstrika öll að sá samningur sem átti að leggja fyrir þingið og reynt var að halda leyndri fyrir þjóðinni, sá samningur sem Samfylkingin reynir að koma sér undan og ætlast til þess að hinn stjórnarflokkurinn beri alla ábyrgð á, þetta er samningur sem þingmenn hafa hafnað. Það er búið að hafna því í fjárlaganefnd og öðrum nefndum að þetta plagg skuli lagt fyrir þingið í þeirri mynd sem það var, þó að því hafi verið lýst sem einkar góðu, glæsilegu o.s.frv.

Þær tillögur sem hafa komið fram, breytingartillögur, fyrirvarar eða hvað á að kalla það fella þennan samning sem lagður var fram í upphafi, gjaldfella samninginn og eru áfellisdómur yfir honum og því hvernig staðið var að því að gera hann. Það er alveg ljóst samkvæmt minni vitund að fyrirvararnir sem lagðir eru fram gera þetta plagg illskárra en það var í upphafi. Illskárra er kannski ósanngjarnt, það er best að nota stærri orð. Þetta er betra plagg en það var í upphafi og það er mikilvægt að við höfum í huga þegar við lítum til baka að sá samningur sem var undirritaður af tryggingarsjóðnum og aðstoðarmanni fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins var ómögulegur.

Þá ætla ég aðeins að koma inn á að því hefur verið haldið fram sums staðar að ríkið komi ekki að þessum samningi fyrr en ríkisábyrgðin er orðin gild. Auðvitað er það blekking því það hlýtur að vera tekið mark á því þegar mjög háttsettur maður úr stjórnsýslunni skrifar undir slíkan samning. Það hlýtur að vera samningur sem stjórnsýslan og þá væntanlega ríkið og ríkisstjórnin samþykkja. Það er verið að samþykkja þau drög og því þýðir ekki að benda á einkaaðila úti í bæ og segja að þetta eigi bara við um hann. Það er ekki þannig. Ríkisstjórnin er með puttana á þessu og í raun á kafi í þessum samningi eftir að hafa undirritað hann. Ég ætla þó ekki að blanda mér í þá umræðu sem hefur orðið um það þegar menn reyndu að blekkja þingheim varðandi það að ekki væri búið að undirrita samninginn eða það mundi ekki gerast á næstu dögum.

Að mínu viti ganga þessir fyrirvarar sem við höfum séð í áliti meiri hlutans, sem er studdur af þeim flokkum sem hvað mesta ábyrgð bera á þessu hruni ásamt Vinstri grænum og Borgarahreyfingu, ekki nægilega langt. Þeir gera ekki nóg til að hafa áhrif á samninginn sem slíkan. Ljóst er að þessir fyrirvarar hafa ekki áhrif á ákveðnar greinar sem miklu skipta enda er ég ekki viss um að það hafi verið hugmyndin þegar þessir fyrirvarar voru settir fram. Hinn efnahagslegi hluti fyrirvaranna er ágætur að mörgu leyti og miklu betri en það sem var lagt af stað með. Það skiptir öllu máli að slíkt sé sett fram en það verður þá að vera hald í því þegar inn í samninginn er komið. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir fjárlaganefnd, sem væntanlega fær samninginn, að fara vandlega yfir það hvort mönnum hafi yfirsést. Ég held að mönnum hafi yfirsést allhrapallega í þessari meðferð og við gerð þessara fyrirvara því í samningnum eru greinar sem útiloka nánast að ríki geti — þótt Alþingi samþykki fyrirvara með skilyrðum eru aðrar greinar í samningnum sem beinlínis vísa í að þetta sé ekki marktækt verði samningurinn samþykktur. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa grein 6.5 sem ber yfirskriftina „Fallið frá vörnum“. Þar stendur:

„Aðgerðir, aðgerðaleysi, málefni eða atriði sem myndu, ef ekki væri fyrir þessa málsgrein (mgr. 6.5), draga úr skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), leysa það undan þeim eða hafa áhrif á þær, hafa ekki áhrif á skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), (án takmarkana og hvort sem íslenska ríkið eða öðrum samningsaðila er um það kunnugt eða ekki).“

Þetta þýðir í rauninni að ef við breytum ekki þessari grein, ef við skrifum undir samninginn, setjum einhverja ríkisábyrgð sem er skilyrt, málið fer fyrir dóm í Bretlandi og þessi texti stendur óhreyfður, gildir þessi texti fyrir dóminum. Þar af leiðandi er það lykilatriði að nefndin fari vandlega yfir þær greinar samningsins þar sem vísað er í aðra hluti en beinlínis er talað um í fyrirvörum. Í þessu getur verið betra heima setið en af stað farið ef við setjum fyrirvara sem eru góðir að ákveðnu marki en dekka ekki hluti eins og að Bretar geti í raun sótt sinn rétt, eins og það er orðað í samningnum. Við megum ekki gleyma því, sem mér hugnast ekki, að ágreiningsefni varðandi samninginn skuli rekið fyrir breskum dómstólum og samkvæmt breskum lögum. Ég er ekki lagasérfræðingur en þeir sem hafa upplýst mig um það segja að það sé óheppilegt því að þau lög sem ná yfir þennan samning séu þannig að þar er hvert orð túlkað nákvæmlega eins og það stendur og því er ekkert svigrúm fyrir neinar vangaveltur. Því skiptir máli að þeir varnaglar, svo ég noti það undarlega orð sem hæstv. forsætisráðherra notaði í dag, sem við setjum varðandi þennan samning séu inni í samningnum. Ég tek undir orð hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrr í dag þar sem hún kom einmitt inn á að það væri nauðsynlegt að hafa í samningnum sjálfum fyrirvara eða ventla sem bæta stöðu Íslands.

Hæstv. forsætisráðherra kallaði í dag þessa fyrirvara varnagla. Ef hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir túlka þá vinnu sem unnin hefur verið í fjárlaganefnd og öðrum nefndum sem varnagla við samningnum og senda þau skilaboð til Breta og Hollendinga að nú sé búið að samþykkja svona varnagla á Íslandi — að mínu viti hefur orðið varnagli í sjálfu sér ekki merkilegra gildi en „við viljum gjarnan sjá til“ eða „við höfum ekki stórar áhyggjur af þessu“ eða eitthvað slíkt, menn slá varnagla fyrir einhverju og það er svona létt orðatiltæki — ef það er þannig þá er ljóst að verið er að blekkja þingið með þessum fyrirvörum og því sem hér er verið að vinna. Ljóst er að ekkert hald er í þessu sem lagt er fram. Því er mikilvægt að varnaglarnir séu a.m.k. beygðir með þeim hætti að ekki réttist úr þeim eða þeir fari úr því sem þeir eiga að festa og það verður eingöngu gert með því að setja þá inn í samninginn.

Ég vil nota tækifærið því að menn í ræðustól ræða gjarnan fortíðina. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert það sjálfur og það er í góðu lagi að rifja hlutina upp. Mig langar því að rifja upp álit sem hæstv. fjármálaráðherra skilaði af sér 3. desember þar sem hann leggur í raun til að verið sé að vísa frá, með leyfi forseta, „þingsályktun um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.“

Hæstv. núverandi fjármálaráðherra, þáverandi þingmaður, leggur til að málinu sé vísað frá með rökstuddri dagskrá, það kemur fram hér. Ég hef þess vegna velt svolítið fyrir mér hvað hafi breyst varðandi afstöðu hæstv. fjármálaráðherra í þessu máli. Væntanlega hefur ekkert breyst annað en það, og fyrir því geta í sjálfu sér verið góð og gild rök, að hann er kominn í ríkisstjórn, ber ábyrgð á málinu og er kannski kominn með sýn á málið sem hann hafði ekki þá. Það getur vel verið að það skipti ekki máli en það getur skipt máli að honum hafi verið hótað einhverju varðandi ríkisstjórnarsamstarf og slíkt og því vilji hann snúa af þeirri braut sem hann var á áður. Mér þykir það í raun miður og ég vona satt að segja að hæstv. fjármálaráðherra endurskoði hug sinn varðandi þetta, horfi aftur til 3. desember og taki undir þá frávísunartillögu sem við framsóknarmenn munum leggja til, þ.e. að málinu verði aftur vísað til ríkisstjórnarinnar og samið upp nýtt. Einhverjum kann að finnast undarlegt að við viljum vísa málinu til ríkisstjórnarinnar til að semja upp á nýtt af því af við höfum kannski ekki svo mikið álit á því að hún hafi staðið sig vel í því sem hingað til hefur verið gert en það er samt hinn eðlilegi vettvangur að ríkisstjórnin geri það. Ég skora því á hæstv. fjármálaráðherra að velta þessu fyrir sér og rifja upp það sem hann lagði sjálfur til 3. desember.

Persónulega tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á að Íslendingar eigi að borga þessar skuldir sem talað er um að við eigum að borga. Ég hef ekki séð færð rök fyrir því að okkur beri að gera það. Hins vegar kann að vera að sú staða sem við erum í bjóði ekki upp á neitt annað en að við borgum, það getur vel verið. Afstaða mín í málinu hefur því á undanförnum vikum mótast svolítið af því. Innst inni tel ég að við eigum ekki að borga þetta því okkur ber ekki skylda til þess. Það er verið að þröngva upp á okkur nauðungarsamningum til að bjarga og vernda stórgallað evrópskt kerfi sem sett er af löndum Evrópusambandsins og við tökum upp sem aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það er verið að láta okkur gjalda fyrir að þetta regluverk er stórgallað. Mér þykir virkilega sárt að Alþingi Íslands hafi látið það yfir sig ganga að taka við því án þess að láta reyna á lögmætan rétt. Ég held reyndar að ekki sé útilokað að það verði gert. Hins vegar er það eflaust pólitískt mjög snúið og ég get mjög vel sett mig í spor þeirra sem stjórna landinu í dag varðandi þá hluti, að það sé ekki einfalt. Samt sem áður er verið að þröngva þessu upp á okkur. Það er einfaldlega verið að láta okkur borga fyrir skemmt epli í regluveldi Evrópusambandsins.

Tíminn er að verða búinn. Ég ætlaði satt að segja ekki að hafa mál mitt mjög langt í kvöld en umræðan hefur þróast þannig að manni liggur mikið á hjarta. Ef á að samþykkja ríkisábyrgð vegna þessara samninga verður hún að vera skotheld. Hún verður að vera inni í samningnum. Þær breytingar sem við gerum verða að halda. Það er ekki nóg að setja almenna fyrirvara sem eru mjög víðir og taka ekki skýrt á málum en það finnst mér að við séum að gera núna. Það þarf að skýra þá fyrirvara sem við setjum ef við ætlum að setja þá á annað borð. Við í Framsóknarflokknum höfum sagt að það beri að semja upp á nýtt og það hefur ekkert breytt þeirri skoðun okkar. Það þarf að gera nýja samninga sem taka mið af aðstæðum Íslands í dag og það þarf að vinna þá samninga í sátt með þinginu og þjóðinni án þess að hafa yfir því leyndarhjúp.

Við erum væntanlega að fara að samþykkja, ég geri ráð fyrir að þetta verði samþykkt, og taka einhverja mestu og mikilvægustu ákvörðun sem tekin hefur verið á Íslandi. Við megum ekki flaska á því að gera byrjendamistök með því að flýta okkur og (Forseti hringir.) horfa fram hjá augljósum hlutum eins og ég hef bent á.