137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa athugasemd. Í samningnum, í grein 6.5 eins og ég vitnaði til áðan, er yfirskriftin „Fallið frá vörnum“. Þar kemur fram varðandi gildi samningsins að hann tekur gildi þegar ákveðnir hlutir gerast. „Gildistaka“. Þar segir m.a., með leyfi forseta, að samningur þessi öðlist gildi þegar: … og svo er upptalning. Í b-lið segir: „Alþingi hefur samþykkt að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð samkvæmt þessum samningi …“ Samkvæmt þessum samningi. Ef við samþykkjum fyrirvara og þeir fyrirvarar taka ekki á því hvað gera skuli, eins og fram kemur í grein 6.5, hvað þýðir þetta þá, hv. þingmaður? Þýðir þetta þá ekki að þessi samningur og þær greinar sem fyrirvararnir ná ekki yfir taka gildi? Það kemur hvergi fram í þeim fyrirvörum og tillögum sem hafa komið fram að aðrar greinar en þær sem akkúrat er fjallað um og fyrirvarar ríkisábyrgðar áttu að taka til gildi ekki. Þá held ég að það gildi í raun einu varðandi það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan, að það stendur að samningurinn, allar greinar hans taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt að taka á sig ábyrgð. Ég efast ekki um að það sé rétt hjá hv. þingmanni að ábyrgðin er háð samþykki Alþingis. Það er eflaust alveg hárrétt. En það stendur í samningnum að hann taki gildi þegar búið er að veita þessa ábyrgð og því hef ég verulegar áhyggjur af greinum sem eru þannig orðaðar að til þeirra er ekki tillit tekið.