137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:47]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á svolítilli þjóðfræði. Íslenska bankahrunið átti sér allnokkurn aðdraganda sem ekki gefst ráðrúm til að rekja hér að neinu marki, enda þekkjum við þá sögu, en hrunið sjálft fór fram á fáeinum dögum í fyrrahaust í atburðarás sem hófst um Mikjálsmessu, þann 29. september.

Það er kannski táknræn tilviljun í þessu sambandi að meðan Mikjálsmessa var enn þá hluti af opinberu kirkjulífi tíðkaðist að miða reikningsskil skulda við Mikjálsmessuna. Svo mikið er víst að við þá atburði sem urðu á Mikjálsmessu í september 2008 voru knúin fram mikil og erfið skuldaskil, þau stærstu sem íslensk þjóð hefur staðið frammi fyrir. Það voru skuldaskil við skefjalausa viðskiptahætti, rofið siðferði og ábyrgðarlausa hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Frá þeim degi hefur íslensk þjóð verið í úlfakreppu, þjökuð af vanmáttugri reiði og sorg, stödd í þrotabúi þeirrar hugmyndastefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi í íslenskt samfélag, illu heilli.

Þegar á fyrstu dögum eftir hrun varð okkur ljóst að engin endurreisn mundi eiga sér stað og engin aðstoð berast okkur að utan nema okkur tækist að ná samningum um Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Fyrstu ófullburða aðgerðir í þá átt að ná samkomulagi um málið til sjö ára með 6,7% vöxtum og þriggja ára greiðslufresti fengu sem betur fer nýjan farveg í byrjun þessa árs sem lyktaði með þeim samningi sem nú liggur fyrir til 15 ára með 5,5% vöxtum og sjö ára greiðslufresti.

Icesave-samningurinn er trúlega þyngsta mál sem komið hefur til kasta Alþingis í lýðveldissögunni, mál sem eðlis síns vegna kallar á yfirvegun og vandvirkni, en ekki síst breiða samstöðu um þátt og ábyrgð hins opinbera í þeim skuldbindingum sem samningurinn inniber. Undanfarna mánuði hefur mikið skort á þá yfirvegun í hinni opinberu umræðu sem hefur verið bæði áróðurs- og æsingakennd af margra hálfu, og þá er ég ekki bara að tala um bloggara og álitsgjafa, sjálfskipaða eða tilfundna, heldur líka stjórnmálamenn og fjölmiðla. Í allt sumar hafa sérfræðingarnir verið eltir hver af öðrum í misvísandi fullyrðingum um túlkun og afleiðingar samningsins fyrir land og þjóð. Í þeirri umfjöllun hefur mikið skort á sjálfstæð vinnubrögð fjölmiðla en þeim mun meira borið á því að sviðsljósi hafi verið beint að þeim hæst hafa haft hverju sinni. Undir öllu þessu hefur þjóðin setið, ráðvillt og agndofa.

Þessi atburðarás gefur fullt tilefni til þess að minna þingheim á ábyrgð sína sem löggjafarvalds og stjórnvalds í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum í þessar vikurnar og mánuðina gagnvart því brýna lífshagsmunamáli sem þjóðin stendur nú frammi fyrir.

Frú forseti. Við verðum að afgreiða þetta mál frá okkur af ábyrgð og yfirvegun. Sem betur fer er nú loks útlit fyrir að það megi takast með þeirri víðtæku sátt sem náðist í fjárlaganefnd þingsins um nefndarálit meiri hlutans sem vonandi slær tóninn fyrir afgreiðslu málsins hér í þinginu.

Ég ætla ekki að elta ólar við fullyrðingar sem fallið hafa hér fyrr í dag í því skyni að sverta ríkisstjórnina og gera vinnubrögð hennar sem tortryggilegust. Ég gef lítið í raun og veru fyrir tilfinningar þingmanna í garð stjórnarinnar því að ég tel þær tilfinningar léttvægar í samhengi málsins í heild sinni. Það eru málalyktirnar sem meiru varða hér og afdrif þjóðarinnar. Það er núna sem reynir á Alþingi Íslendinga, hvort það yfirleitt stendur undir nafni sem þjóðþing.

Okkur má vera það fullljóst — sem við máttum vita — að Íslendingar hafa enga stöðu gagnvart öðrum þjóðum í augnablikinu. Ef við ljúkum ekki þessu máli verðum við einfaldlega álitin ójafnaðarmenn í augum umheimsins, þjóð sem ekki vill standa við skuldbindingar sínar, þjóð sem ól af sér kynslóð fjárglæframanna, hannaði fyrir þá vettvang til að athafna sig á, þar sem þeir gátu látið greipar sópa um fjármálakerfið og narrað saklausan almenning til að leggja fé inn á reikninga, m.a. Icesave-reikningana í Bretlandi og Hollandi. Slíkri þjóð er ekki treystandi — og við viljum ekki vera slík þjóð, vona ég.

Málið snýst ekkert um það að „borga skuldir óreiðumanna“ heldur að standa við alþjóðlegar og siðlegar skuldbindingar gagnvart innstæðueigendum í íslenskum bönkum hérlendis og erlendis.

Nú liggja fyrir fyrirvarar og skilyrði af hálfu þingsins við samninginn við Breta og Hollendinga. Þeir fyrirvarar taka af allan vafa um skilning þingsins á ríkisábyrgðinni, verði þeir samþykktir, og ég lýsi ánægju með þá vinnu sem átt hefur sér stað í hv. fjárlaganefnd um málið. Það er von mín að þessir fyrirvarar verði til þess að samningurinn haldi á þeim forsendum sem þingið hefur sett með þessum fyrirvörum, eða mun setja með þessum fyrirvörum, svo hægt sé að ljúka þessu máli og endurreisa efnahagslífið. Það starf hefur verið tafið nóg og má ekki tefjast mikið lengur.

Frú forseti. Okkar bíður mikið starf að frágengnu þessu máli. Meinsemdir þær sem ollu bankahruninu eru enn til staðar í íslensku samfélagi og það mun sjálfsagt taka ár og áratugi að vinna bug á þeim. Við sjáum þær meinsemdir víða í kringum okkur. Við sjáum þær í þvermóðsku fjármálastofnana við að veita stjórnvöldum upplýsingar sem gagnast geti við rannsókn á hruninu. Við sjáum það á fáránlegum kröfum stjórnenda fjármálafyrirtækja um svimandi háar bónusgreiðslur fyrir það eitt að vinna störfin og gera það sem til er ætlast og þá er ég að tala um þessa menn sem vilja fá föstu launin fyrir það að draga andann og bónusgreiðslur fyrir að vinna verkin.

Við sjáum þær meinsemdir í ósanngjörnu og græðgisvæddu kvótakerfi. Við sjáum þær meinsemdir í afskriftum hárra skulda gagnvart útvöldum á meðan fjölskyldur eru að bugast og menn eru að brotna undan skuldabyrði og áhyggjum.

Nei, gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjuhugmyndafræði hans og meinsemdirnar sem ollu hruninu eru, eins og ég sagði, flestar til staðar. Við skulum ekki vaða í þá villu að halda að nú hafi allir lært sína lexíu og að héðan í frá verði allt betra.

Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu missirin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu. Þau munu snúast um það hvaða aðferðum verði beitt við uppgjörið vegna bankahrunsins, hvort spilin verða stokkuð upp og hvernig gefið upp á nýtt. Þau munu snúast um það hvort eitthvert uppgjör muni eiga sér stað yfirleitt því að það eru sterk öfl að verki í íslensku samfélagi og þau öfl vilja ekki uppgjör.

Frú forseti. Stjórnvöld landsins standa nú frammi fyrir því sögulega tækifæri að reisa við efnahagslíf okkar. Ein stærsta fyrirstaðan í endurreisn efnahagslífsins, Icesave-samningurinn og Icesave-deilan, verður nú vonandi afgreidd héðan frá Alþingi með viðunandi fyrirvörum. Þar með væri stórum steini rutt úr vegi, en vegferðin fram undan er löng og þau verða sjálfsagt mörg, villuljósin sem lögð verða fyrir okkur á þeirri leið. Við höfum nú þegar elt eitt þeirra — frjálshyggjuljósið — út í fenjasvæði siðblindunnar og það má aldrei gerast aftur.

En ljós vonar getum við vonandi kveikt og það er a.m.k. á ábyrgð þjóðþingsins að halda vonarljósinu lifandi á þeim tímum sem nú fara í hönd.